Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, segir það þess virði að reyna að miðla málum í Úkraínu. Það sé hins vegar alls óvíst hvort slíkt beri árangur. Þýskaland og Frakkland ætla enn einu sinni að reyna að koma að lausn í deilunni í Úkraínu.
„Tíminn er að hlaupa frá okkur,“ sagði Francois Hollande, forseti Frakklands, í dag. „Á morgun, sunnudag, munum við sjá hvort við getum þokast í átt að lausn. Ef þetta verður ekki leyst á morgun munum við halda viðræðum áfram ef þörf krefur en við höfum ekki mikinn tíma.“
Meðal þess sem þarf að leysa eru landamæramál og afvopnun stríðandi fylkinga. Merkel og Hollande hittu Pútín forseta Rússlands í gær vegna málsins.
Friðarviðræðurnar munu halda áfram á morgun.