Grikkir hafa formlega óskað eftir sex mánaða framlengingu á lánum sínum, samkvæmt embættismönnum í Aþenu og Brussel. Vonir þeirra standa til að tíminn verði nýttur til að ná fram nýju lánasamkomulagi og koma í veg fyrir greiðslufall ríksins.
Jeroen Dijsselbloem, fjármálaráðherra Hollands sem fer fyrir evruhópnum svokallaða, staðfesti á Twitter-aðgangi sínum að beiðnin hefði borist.
Received Greek request for six months extension.
— Jeroen Dijsselbloem (@J_Dijsselbloem) February 19, 2015
Stjórnvöld í Grikklandi hafa ítrekað lýst yfir staðföstum vilja til að endursemja um skilmála eldri lánasamninga, svokallaðs björgunarpakka, en ýmis evruríkjanna hafa hafnað þeim umleitunum. Þar fara Þjóðverjar fremstir í flokki.
„Tillaga okkar verður orðuð á þann hátt að hún nær bæði yfir kröfur Grikkja og leiðtoga evruhópsins,“ sagði Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, seint í gær.
Stjórnvöld í Aþenu eru undir miklum þrýstingi að greiða úr skuldamálum ríkisins til að koma í veg fyrir fjármagnsþurrð og enn frekari hörmungar fyrir efnahag landsins. Beggja vegna borðsins eru aðilar sammála um að forða því að Grikkir gangi úr evrusamstarfinu.
Nýkjörin ríkisstjórn hefur stöðvað einkavæðingarferlið sem fór í gang í kjölfar þess að Grikkir sömdu um björgunarpakkann við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, og heitið því að hækka laun og afturkalla aðhaldsaðgerðir á vinnumarkaði.
Lánasamningarnir renna að óbreyttu út í lok mánaðar, en ýmsir aðilar þurfa að samþykkja beiðni Grikkja um framlengingu, m.a. þjóðþing nokkurra evruríkjanna.