Forseti Frakklands, François Hollande greindi frá því í gærkvöldi að til stæði að herða viðurlög við rasisma í landinu.
Þetta kom fram í ræðu forsetans í kvöldverðarboði meðal gyðinga. Hollande sagðist vilja sjá að viðurlögum væri beitt fyrr og þau væru þyngd gagnvart þeim sem yrðu uppvísir að gyðingahatri, hatri gagnvart múslímum, samkynhneigðum og rasisma af hverju tagi. Hann segist vilja sjá slíka hatursorðræðu falla undir hegningarlög ekki meiðyrðalöggjöf.
Eins verða aðgerðir hertar gagnvart þeim sem hyggja á þátttöku í heilögu stríði og verða ný lög á því sviði kynnt í næsta mánuði.
Það vakti töluverða athygli að prestur stóru moskunnar í París, Dalil Boubakeur, var ekki viðstaddur kvöldverðinn en hann reiddist mjög við ummæli leiðtoga gyðinga, Roger Cukierman, um að ungir múslímar beri ábyrgð á ofbeldisverkum gagnvart gyðingum.
Cukierman sagði í gærkvöldi að honum þætti mjög miður að Boubakeur hafi ekki mætt til veislunnar og að hann vonist til þess að sættir náist því gyðingar og múslímar séu á sama báti.
Allt frá árásunum í janúar þar sem 17 voru myrtir hefur lögregla og hermenn staðið vörð fyrir utan bænahús gyðinga og skóla þeirra í París.
Í síðasta mánuði kom fram að árásum á gyðinga hafi fjölgað mjög í Frakklandi í fyrra en alls býr um hálf milljón gyðinga í Frakklandi. Um er að ræða stærsta samfélag gyðinga í Evrópu sem og stærsta samfélag múslíma í Evrópu en þeir eru um fimm milljónir talsins í landinu.
Um 6.600 gyðingar fluttu frá Frakklandi í fyrra til Ísraels og er gert ráð fyrir að þróunin verði áfram sú sama.