Héldu mótmæli gegn innflytjendum

Matteo Salvini heldur ræðu sína á torginu í gær frammi …
Matteo Salvini heldur ræðu sína á torginu í gær frammi fyrir stuðningsmönnum sínum. Áletrun skiltisins gæti útlagst sem: Renzi, farðu heim! AFP

Þúsundir manna söfnuðust saman í Rómarborg í gær til að ganga mótmælagöngu gegn innflytjendum, Evrópusambandinu og ríkisstjórn forsætisráðherrans Matteo Renzi. Ítalski stjórnmálaflokkurinn Norðurdeildin stóð fyrir mótmælunum en leiðtogi hans, Matteo Salvini, sakar forsætisráðherrann um að setja hagsmuni ESB framar hagsmunum Ítalíu.

Á sama tíma í borginni voru stór mótmæli haldin gegn Salvini en þrátt fyrir það benda kannanir til þess að fylgi við Salvini og Norðurdeildina aukist nú hratt.

Norðurdeildin var eitt sinn í sterku bandalagi með Silvio Berlusconi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu. Undanfarið hefur flokkurinn þó reynt að finna nýja bandamenn eftir að hann var fundinn sekur um skattsvik sem neyddu hann til að stíga af þingi.

„Vandamálið er ekki Renzi, Renzi er bara peð, hann er heimskur þræll í þjónustu einhverrar nafnlausrar persónu sem vill stjórna lífi okkar allra frá Brussel,“ sagði Salvini í ræðu sinni á einu stærsta torgi borgarinnar, Piazza del Popolo.

Mótmælin koma aðeins tveimur mánuðum fyrir áformaðar sveitastjórnarkosningar í landinu í maímánuði. Segja sérfræðingar að Salvini gæti fetað í fótspor annarra leiðtoga í evrópskum hægri flokkum með því að byggja framboð sitt á aukinni andúð í garð innflytjenda.

Fréttastofa breska ríkisútvarpsins greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert