Fara fram á skaðabætur vegna hlerana

Blöðin stunduðu umfangsmiklar og reglubundnar símahleranir.
Blöðin stunduðu umfangsmiklar og reglubundnar símahleranir. AFP

Á Daily Mirror, Sunday Mirror og People stunduðu blaðamenn umfangsmiklar og reglubundnar símhleranir um margra ára skeið. Einn blaðamanna Sunday Mirror, Dan Evans, hleraði síma um 100 frægra einstaklinga á hverjum degi á árunum 2003 og 2004.

Þetta er meðal þess sem hefur komið fram í máli sem átta einstaklingar hafa höfðað gegn fjölmiðlasamsteypunni Mirror Group Newspapers (MGN) vegna símhlerana fjölmiðlanna. Vilja þeir að dómari leggi mat á umfang hlerana hjá miðlunum og úrskurði um skaðabætur.

Meðal einstaklinganna átta eru leikkonan Sadie Frost, fótboltamaðurinn Paul Gascoigne og Alan Yentob, listrænn stjórnandi BBC.

Fram hefur komið í málinu að sími Frost hafi verið hleraður á hverjum degi, kvölds og morgna, m.a. vegna þess að þegar hleranirnar fóru fram var hún gift leikaranum Jude Law. Þá er hún góðvinkona ofurfyrirsætunnar Kate Moss.

Brotin eru sögð hafa staðið yfir allt frá 1999 hjá Daily Mirror og fram til 2006 hjá miðlunum þremur. Lögmaður áttmenninganna, David Sherborne, segir að milli 2002 og 2006 hafi starfsmenn MGN hringt nærri 10.000 sinnum í talhólfskerfi Orange, til að hlera skilaboð fræga fólksins.

Hann sagði að blaðamenn MGN hefðu viljandi gefið rangar upplýsingar fyrir Leveson-rannsóknarnefndinni um siðferði fjölmiðla og þar sem MGN hefði haldið eftir sönnunargögnum væri aðeins hægt að varpa ljósi á lítinn hluta brotanna.

Fram hefur komið að fyrrnefndur Evans hafi fengið leiðbeiningar um hvernig ætti að hlera síma hjá tveimur reyndum blaðamönnum í apríl 2003. Þá var honum sagt að byggja upp „hlerunargagnagrunn“. Þeir símar sem hann notaðist við enduðu í Thames, en Evans skipti um síma á tveggja mánaða fresti.

MGN neitaði lengst af að hafa stundað símhleranir en hefur viðurkennt að 99 umfjallanir um einstaklingana átta hefðu ekki birst nema af því að símar þeirra voru hleraðir. Samsteypan hefur sett á fót 12 milljóna punda sjóð til að standa straum af skaðabótagreiðslum til þeirra sem brotið var á.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert