Voveifleg andlát andstæðinga Pútíns

Samsétt ljósmynd sem sýnir mannréttindafrömuðinn Natalia Estemirova, auðjöfurinn Boris Berezovsky, …
Samsétt ljósmynd sem sýnir mannréttindafrömuðinn Natalia Estemirova, auðjöfurinn Boris Berezovsky, Sergei Yushenkov, njósnarann Alexander Litvinenko, Boris Nemtsov, mannréttindalögfræðinginn Stanislav Markelov, rússneski lögfræðinginn Sergei Magnitsky, blaðamennina Anastasiya Baburova og Anna Politkovskaya. Öll eiga þau sameiginlegt að hafa verið andstæðingar rússneskra yfirvalda og að hafa látist með vofeiflegum hætti. AFP

Morðið á Boris Nemtsov, einum helsta andstæðingi Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, hefur vakið gríðarlega athygli og það ekki að ástæðulausu. Lögregla hefur sagt það bera öll ummerki leigumorðs og virðist það hafa verið skipulagt í þaula. Nemtsov hafði átt að leiða fjöldamótmæli gegn Pútín í Moskvu síðastliðinn sunnudag en þess í stað urðu mótmælin að minningarathöfn.

Nemtsov er langt því frá eini andstæðingur Pútíns sem hefur látið lífið á grunsamlegan eða voveiflegan hátt og verða hér tekin nokkur dæmi um dauðsföll sem aldrei hafa fengist upplýst að fullu.

Sergei Yushenkov

Stjórnmálamaðurinn Sergei Yushenkov var myrtur við heimili sitt í Moskvu í apríl 2003. Hann var hávær gagnrýnandi Pútíns og stofnaði ásamt fleirum flokkinn Liberal Russia árið 2000. Aðeins fáeinum mánuðum fyrir morðið á Yushenkov var annar meðlimur flokksins skotinn til bana og sagði Yushenkov opinberlega að hann teldi morðið eiga rót sína í stjórnmálum. Liberal Russia öðlaðist fyrst viðurkenningu sem fullgildur og löglegur flokkur í Rússlandi aðeins nokkrum klukkutímum áður en Yushenkov var skotinn margsinnis í brjóstkassann.

Yuri Shchekochikhin

Í júlí sama ár lést þing- og rannsóknarblaðamaðurinn Yuri Shchekochikhin eftir dularfull veikindi sem vöruðu í 16 daga.

Vitni lýsir veikindunum sem svo að Shchekochikin hafi kvartað yfir þreytu og að rauðir blettir hafi birst á húð hans. Líffærin gáfust síðan upp eitt af öðru og einnig missti hann allt hárið. Shchekochikhin var þekktur fyrir skrif sín um spillingu í landinu og þó svo að læknar segi hann hafa látist vegna ofnæmisviðbragða er fjölskylda hans sögð efast og hafa reynt að fá frekari upplýsingar og skýrslur án árangurs.

Paul Klebnikov

Paul Klebnikov, ritstjóri rússnesku útgáfunnar af Forbes-tímaritinu, var skotinn úr bíl á ferð þar sem hann var á gangi í Moskvu. Klebnikov var iðinn við að gagnrýna fámennisstjórn Rússlands en hann lést af sárum sínum á sjúkrahúsi í júlí 2004.

Anna Politkovskaya

Í október 2006 var rannsóknablaðamaðurinn Anna Politkovskaya skotin til bana fyrir utan íbúð sína í Moskvu. Politkovskaya var einna þekktust fyrir ákafa gagnrýni á Kreml vegna stríðsins í Tétsníu. Morðið var sagt bera merki leigumorðs. Polikovskaya hafði áður fengið hótanir vegna frétta sinna auk þess sem margir telja að áður hafi verið reynt að myrða hana árið 2004 þegar hún fékk skyndilega heiftarlega matareitrun.

Alexander Litvinenko

Aðeins mánuði síðar sama ár dó fyrrverandi njósnarinn Alexander Litvinenko eftir að hafa drukkið te sem hafði verið blandað póloníum á hóteli í London. Sagt er að Litvinenko hafi sinnast við Vladimir Pútín seint á tíunda áratugnum þegar sá síðarnefndi var yfirmaður í rússnesku leyniþjónustunni FSB. Litvinenko starfaði við innra eftirlit í ríkisstofnunum og er sagður hafa eignast marga óvini í vinnu sinni við að koma upp um spillingu. Litvinenko og Polikovskaya eru sögð hafa verið nánir vinir og unnið saman í baráttunni gegn Kreml.

Litvinenko varð fyrst áberandi árið 1998 þegar hann kom upp um meint ráðabrugg um að myrða auðjöfurinn Boris Berezovsky. Hann var handtekinn í kjölfarið, sakaður um að hafa misnotað vald sitt sem opinber starfsmaður og eyddi níu mánuðum í fangelsi. Síðar skrifaði hann bók þar sem hann hélt því fram að sprengjuárás á rússneska blokk sem tók líf yfir 300 manns hefði í raun verið skipulögð af FSB en ekki tétsneskum uppreisnarmönnum eins og rússnesk yfirvöld halda fram. Litvinenko flúði til Bretlands árið 2000. Hann breytti reglulega um heimilisfang og símanúmer en árið 2005 var gerð tilraun til að ýta vagni fullum af bensínsprengjum inn á heimili hans. Litvinenko hélt áfram að tala gegn rússnesku ríkisstjórninni allt til dauðadags.

Boris Berezovsky

Auðjöfurinn Boris Berezovsky fannst á baðherbergi heimilis síns í London í mars 2013. Berezovsky var eitt sinn mjög áhrifamikill í rússneskum stjórnmálum en vald hans tók að rýrna þegar Pútín tók um stjórntaumana. Enn er ekki fyllilega ljóst hvers vegna Berezovsky dó. Dánarorsökin var köfnun enda fannst hann með band um hálsinn en dánardómstjóri sagði sönnunargögnin ekki næg til að fullyrða að um sjálfsmorð hefði verið að ræða og hefur það opnað á vangaveltur um morð.

Boris Nemtsov og Vladimir Pútín.
Boris Nemtsov og Vladimir Pútín.
Lík Nemtsov, hulið svörtu plasti, á brú nálægt Kreml.
Lík Nemtsov, hulið svörtu plasti, á brú nálægt Kreml. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert