Fækkaði úr 3.150 í 646

Sýrlenskir flóttamenn taka við neyðargögnum í Tripoli.
Sýrlenskir flóttamenn taka við neyðargögnum í Tripoli. AFP

Hælisumsóknum hefur snarfækkað í Danmörku eftir að breytingar voru gerðar á innflytjendalöggjöfinni í fyrra, til að koma hömlum á straum sýrlenskra flóttamanna til landsins. Í janúar sóttu 626 um hæli í Danmörku, um helmingurinn frá Sýrlandi, en í septembermánuði voru hælisumsækjendur 3.150.

Danska ríkisstjórnin kynnti í september sl. ný eins árs búsetuleyfi fyrir flóttamenn sem hafa yfirgefið heimili sín vegna borgarastyrjalda. Leyfin, sem voru tekin í gagnið eftir áramót, má framlengja um tvö ár, en samkvæmt reglum getur fólk ekki nýtt sér ákvæði er varða sameiningu fjölskyldunnar fyrsta árið.

Einn talsmanna sósíaldemókrata, Ole Haekkerup, segist telja að lengd landvistarleyfisins og skilyrði um sameiningu fjölskyldna séu ráðandi þættir þegar kemur að hælisumsóknum. Þar hafi stjórnvöld ákveðið að beita sér.

Hælisumsóknum fækkaði einnig í Svíþjóð, en mun minna. Í janúar sóttu þar 4.894 um hæli, samanborið við 9.976 í september. Árið 2013 varð Svíþjóð fyrsta landið til að veita sýrlenskum flóttamönnum sjálfkrafa hæli, og hafa hælisumsóknir þar í landi aldrei verið fleiri. Er því spáð að í ár muni þær telja um 90.000.

Svíþjóð er það land innan Evrópusambandsins sem tekur á móti flestum flóttamönnum, en fleiri Sýrlendingar hafa flúið til Þýskalands. Samkvæmt Evrópusambandinu fjölgaði innflytjendum í aðildarríkjunum úr 100.000 árið 2013 í 280.000 árið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert