Reyndi sjálfsvíg en var bjargað af sæljóni

Golden Gate brúin í San Francisco
Golden Gate brúin í San Francisco AFP

Maður sem ætlaði að fremja sjálfsvíg og stökk af Golden Gate-brúnni í San Francisco fyrir nokkrum árum lifir nú á því að halda fyrirlestra um sjálfsvígstilraunina. 

Kevin Hines, sem er nú á ferðalagi um Ástralíu þar sem hann fjallar um lífsreynslu sína, segir að hann hafi átt við andlega vanheilsu að stríða á unglingsárunum og þjáðst af þunglyndi þegar hann tók þá ákvörðun að stökkva fram af brúnni árið 2000.

Hann lifði af fallið og það fyrsta sem hann sá var hákarl í sjónum fyrir framan hann. Hines segir að hann hafi sleppt sér og það eina sem hafi komist í huga hans hafi verið að hann hefði lifað fallið af og nú myndi hann deyja af völdum þessarar skepnu. „Ég hélt í alvörunni að þetta væri hákarl sem myndi bíta af mér fótlegginn og ég fylltist skelfingu.“

En það sem gerðist var að skepnan synti áfram í kringum hann og það var eins og hún reyndi að halda Hines á floti. Það var ekki fyrr en síðar sem maður sem var á brúnni og fylgdist með sagði Hines að þetta hefði ekki verið hákarl heldur sæljón. 

Hines segir í samtali við AFP-fréttastofuna að allir sem fylgdust með af brúnni hafi séð sæljónið synda í kringum hann og halda honum á floti. Sæljónið, sem var undir Hines í sjónum, hætti ekki og yfirgaf hann ekki fyrr en búið var að bjarga honum um borð í bát.

Að sögn Hines kom fleira til við björgunina því kona sem sá hann stökkva hringdi strax í strandgæsluna sem kom honum strax til bjargar. Því hver mínúta skipti sköpum vegna þeirra meiðsla sem hann hlaut í fallinu og hættunnar á ofkælingu.

„Ég er einn af innan við einu prósenti sem lifir af þetta fall,“ segir Hines. En margir þeirra sem lifa af ná aldrei aftur fyrri styrk líkt og Hines gerði.

Hines, sem er 33 ára í dag, talar nú fyrir hönd þeirra sem glíma við andleg veikindi og er þekktur fyrirlesari um allan heim. Hans ástríða er að reyna að koma í veg fyrir að fólk taki eigið líf og það er lifibrauð hans í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert