Hafa eyðilagt ómetanleg verðmæti

Nimrud liggur um 30 km suðaustur af Mosul og er …
Nimrud liggur um 30 km suðaustur af Mosul og er ein helsta heimildin um menningu Asseríumanna. Skemmdarverk liðsmanna Ríkis íslam á staðnum verða ekki metin í peningum. AFP

Skemmdarverk liðsmanna Ríkis íslams í Nimrud eru aðeins þau síðustu í niðurrifsherferð samtakanna gegn menningararfi í Írak. Að sögn íraskra stjórnvalda fóru íslamistarnir með jarðýtur á menningarverðmætin í Nimrud, en UNESCO hefur kallað aðfarirnar „stríðsglæp“.

Mosul-safn

Safnið í Mosul er það næstmikilvægasta í Írak á eftir safninu í Baghdad. Í myndbandi sem Ríki íslams sendi frá sér 26. febrúar sl. sást hvernig liðsmenn samtakanna beittu sleggjum til að mölbrjóta styttur, sumar hverjar frá Nimrud og Hatra, þar sem er að finna fornminjar frá tímum Rómaveldis. Að sögn sérfræðinga voru um 90 munir eyðilagðir eða skemmdir.

Nabi Yunus-helgidómurinn

24. júlí 2014 gjöreyðilögðu liðsmenn Ríkis íslams grafhýsi Jonah, einn helsta helgidóm Mosul, sem einnig er þekktur undir nafninu Nabi Yunus. Þeir komu sprengiefnum fyrir á svæðinu og sprengdu fyrir framan fjölda áhorfenda.

Bókasafnið í Mosul

Þúsundir bóka og fágætra handrita voru brennd á safninu í febrúar. Það er ekki ljóst hversu miklar skemmdir voru unnar á safninu sjálfu, en UNESCO hefur lýst eyðileggingu bókanna sem nýjum áfanga í menningarlegum hreinsunum íslamistanna.

Tal Afar-borgarvirkið

Í janúar sl. fóru myndi í dreifingu sem sýndu að veggir borgarvirkisins í Tal Afar, borg vestur af Mosul, hefðu verið mikið skemmdir. Talið er að skemmdarverkið hafi átt sér stað seint í desember eða snemma í janúar.

Styttan af Abu Tammam

Abu Tammam var arabískt ljóðskáld sem bjó í Mosul á 9. öld. Hann reit m.a. Hamasah, safn tíu ljóðabóka. Styttan af honum var felld í júní sl.

Græna kirkjan

Mikilvæg dómkirkja sem var fyrst reist fyrir um 1.300 árum í borginni Tikrit er þekkt undir nafninu Græna kirkjan, eða Mar Ahudama, og var vettvangur morða mongólskra innrásarmanna á kristnum Asseríumönnum árið 1258. Kirkjan var eyðilögð seint í september sl. eða snemma í október.

Helgidómur hinna fjörutíu

Seint í september var Helgidómur hinna fjörutíu sprengdur í loft upp. Minnisvarðinn markaði grafir 40 hermanna úr her kalífans Omar ibn Khattab á tímum íslamskra landvinninga í Mesópótamíu árið 638.

AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert