Harrison Ford í flugslysi

Samkvæmt AFP er vélin í eigu Harrison Ford. Fréttastofan segir …
Samkvæmt AFP er vélin í eigu Harrison Ford. Fréttastofan segir leikarann hafa slasast alvarlega í slysinu. AFP

Erlendir miðlar hafa sagt frá því í kvöld að leikarinn Harrison Ford hafi slasast í flugslysi í Kaliforníu. Fregnum ber ekki saman um hversu alvarlega hann er slasaður; samkvæmt Sky eru meiðsl hans ekki stórvægileg en Guardian hefur eftir TMZ að þau séu veruleg.

Yfirvöld hafa ekki staðfest að Ford hafi verið maðurinn sem slasaðist þegar lítil vél brotlenti á Penmar-golfvellinum nærri flugvellinum í Santa Monica í Los Angeles. Þau hafa hins vegar sagt að maður, 65-70 ára, hafi verið fluttur á sjúkrahús í stöðugu ástandi.

Samkvæmt Sky var maðurinn með meðvitund þegar björgunarmenn mættu á vettvang.

Slúðursíðan TMZ segir að Ford, 72 ára, hafi hlotið marga skurði á höfði í slysinu. Ekki hefur komið fram hvort vélin var í flugtaki eða lendingu þegar atvikið átti sér stað.

Hér má lesa frétt Guardian af málinu. TMZ fylgist náið með þróun mála.

Uppfært kl. 00.46:

NBC hefur eftir syni Ford að hann sé „í fínu lagi“ en með einhverja skurði.

Harrison Ford
Harrison Ford AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert