Sagði frá dauða sonar síns

Dzhokhar Tsarnaev gæti hlotið dauðarefsingu verði hann fundinn sekur.
Dzhokhar Tsarnaev gæti hlotið dauðarefsingu verði hann fundinn sekur. AFP

Bill Richard, faðir hins átta ára gamla Martins Richards sem lést í seinni sprengingunni í Boston-maraþoninu 2013, bar vitni í dag í réttarhöldunum yfir Dzhokhar Tsarnaev.

Richard lýst því hvernig sprengingin varð til þess að hann endaði sjálfur úti á miðri götu. Þegar hann náði aftur til sona sinna Martins og Henris, eiginkonu sinnar Denise og dótturinnar Jane vissi hann að það var þegar of seint að bjarga Martin.

„Ég sá Denise og annað fólk stumra yfir og reyna að hjálpa Martin. Ég vissi að ég þurfti að fara til baka og hjálpa Jane. Þegar ég sá ástand Martins vissi ég að hann myndi ekki lifa þetta af,“ sagði Richard. Í sprengingunni sprakk vinstri fótur hinnar sex ára gömlu Jane af við ökkla og Richard ákvað að fara með henni í sjúkrabílinn. Það var því í síðasta skipti sem hann sá son sinn á lífi.

Fótleggur Jane var fjarlægður fyrir neðan hné. Richard og Henri sonur hans fengu aðhlynningu vegna brunasára og annarra meiðsla en Richard varð fyrir varanlegum heyrnarskemmdum við sprenginguna.

Nokkrum klukkutímum síðar hringdi Denise í hann. „Hún sagði mér að Martin væri dáinn,“ sagði Richard. „Ég sagði: Ég veit.“

Stjarnan í hryllingsmynd

Margir meðlimir kviðdómsins felldu tár yfir frásögn Richards en henni var fylgt eftir með myndbandi úr öryggismyndavél sem sýndi hvar Richard-fjölskyldan stóð þegar sprengingin átti sér stað. Myndbandið sýnir mann sem sagður er vera Tsarnaev ganga með bakpoka yfir öxlina en síðar í myndbandinu sést hann án bakpokans. Maðurinn stendur í um þrjár mínútur á bak við áhorfendur að maraþoninu en gengur svo í burtu. Tíu sekúndum síðar á sprengingin sér stað.

Fyrr um daginn hafði kona að nafni Roseann Sdoia, sem slasaðist í sprengingunni, borið vitni. Sdoia missti annan fótlegginn og var ljósmynd af sárum hennar sýnd kviðdómnum. „Það var næstum eins og ég væri stjarnan í hryllingsmynd. Einhver sagði mér að koma mér þaðan. Ég sagði að ég gæti ekki staðið upp,“ sagði Sdoia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert