Fjölskyldurnar fá milljónastyrki

Þýskir og spænskir lögregluþjónar votta fórnarlömbum flugslyssins virðingu sína.
Þýskir og spænskir lögregluþjónar votta fórnarlömbum flugslyssins virðingu sína. AFP

Þýska lággjaldaflugfélagið Germanwings hefur boðið fjölskyldum fórnarlamba flugslyssins í frönsku Ölpunum allt að 50 þúsund evrur (tæplega 7,5 m.kr.) á farþega.

Fjárhagsaðstoðina frá flugfélaginu þurfa fjölskyldurnar ekki að greiða til baka og er aðstoðin ekki hluti af skaðabótum sem flugfélagið þarf að öllum líkindum að greiða, sagði talsmaður Germanwings við fréttastofuna AFP fyrr í dag. Fjárhagsaðstoðin er þannig frekar hugsuð sem eins konar styrkur til aðstandenda fórnarlambanna.

Í þýska dagblaðinu Tagesspielgel var vísað til sérfræðings í lögum um flugmál, Holger Hopperdietzelm, sem sagði Lufthansa, móðurfélag Germanwings, þurfa að greiða skaðabætur frá tugþúsundum evra að hundruðum þúsunda evra fyrir hvert fórnarlamb.

lmar Giemulla, prófessor í fluglögum við Tækniháskólann í Berlín, sagði við dagblaðið Rheinische Post, að hún ætti von á því að Lufthansa myndi greiða á milli 10 og 30 milljónir evra í heildina (1,5 ma. kr. til 4,5 ma. kr.).

Ábyrgð flugfélaga vegna flugslysa var ákveðin á ráðstefnu í Montreal árið 1999 þar sem niðurstaðan varð að hámarksábyrgð flugfélaga væri 143 þúsund evrur á fórnarlamb.

Ekki er talið að sú staðreynd um að flugmaðurinn hafi flogið flugvélinni vísvitandi á fjallið muni hafa áhrif á upphæð skaðabótanna. Allianz Global Corporate & Specialty (AGCS), dótturfélag þýska tryggingarrisans Allianz, sem sérhæfir sig í tryggingum stórfyrirtækja er vátryggjandi Germanwings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert