Svona voru síðustu 30 mínútur flugsins

Björgunarmenn vinna nú á slysstað að því að sækja líkamsleifar …
Björgunarmenn vinna nú á slysstað að því að sækja líkamsleifar þeirra sem fórust í slysinu. AFP

Hljóðupptaka af því sem fram fór í flugstjórnarklefa GermanWings-þotunnar síðustu þrjátíu mínúturnar áður en hún brotlenti í Ölpunum veitir enn sem komið er bestu upplýsingar um hvað raunverulega gekk á um borð.

Rannsakendur hafa hlustað af nákvæmni á upptökuna og hafa dregið þá ályktun að hinn 28 ára aðstoðarflugmaður, Andreas Lubitz, hafi viljandi lækkað flug vélarinnar og brotlent henni.

En hvað gerðist þennan síðasta hálftíma?

Vél Germanwings, flug 4U 9525, tók á loft frá flugvellinum í Barcelona á leið sinni til Düsseldorf í Þýskalandi kl. 09.01 að íslenskum tíma hinn 24. mars. 150 manns voru um borð.

Sjá frétt: Hver voru fórnarlömbin?

Vélin, sem var af gerðinni Airbus 32, flaug yfir hafið í átt að Frakklandi. Það tók vélina um hálftíma að komast upp í farflugshæð, 38 þúsund fet (11.600 m).

Flugið til Düsseldorf átti að taka tvo tíma.

Kl. 9.30 er í síðasta sinn haft samband úr flugstjórnarklefanum við flugumferðarstjórn. Um er að ræða hefðbundin skilaboð, beðið er um leyfi til að halda för áfram eftir ákveðinni flugleið. Allt var þá eins og það átti að vera.

Aðeins mínútu síðar, kl. 9.31, fer vélin að lækka flugið.

Franski saksóknarinn Brice Robin sagði að fyrstu 20 mínútur flugsins hefði samtal flugstjórans og aðstoðarflugmannsins verið hefðbundið og kurteislegt. 

Skömmu eftir síðustu samskipti úr flugstjórnarklefanum við flugmálastjórn yfirgefur flugstjórinn flugstjórnarklefann, líklega til að fara á klósettið.

Á upptökunni heyrist þegar hann biður aðstoðarflugmanninn að taka við stjórn vélarinnar. Sæti er fært afturábak og svo heyrast dyr lokast.

Aðstoðarflugmaðurinn var þá orðinn einn í flugstjórnarklefanum. Hann ýtir strax á takka í stjórnborðinu svo vélin tekur að lækka flugið. „Þessi aðgerð hans við stjórn vélarinnar var viljaverk,“ sagði Robin saksóknari í gær.

Tímaröðin er því þessi:

Kl. 9.30: Haft er samband í síðasta sinn úr flugstjórnarklefanum við flugumferðarstjórn. Hefðbundin skilaboð þar sem beðið er um leyfi til að halda för áfram á ákveðinni leið. Flugstjórinn yfirgefur flugstjórnarklefann.

Kl. 9.30:55: Sjálfstýringunni er breytt úr 38.000 fetum í 100 fet.

Kl. 9.31: Vélin tekur að lækka flugið yfir strönd Frakklands, aðeins aðstoðarflugmaðurinn, Andreas Lubitz, er í flugstjórnarklefanum.

Kl. 9.35: Flugumferðarstjórn reynir að hafa samband við vélina en fær engin svör. Á þessum tíma kemst flugstjórinn ekki inn í flugstjórnarklefann að nýju. Hann byrjar að banka og berja á hurðina. Á upptökunni má heyra flugmanninn anda eðlilega allt þar til vélin brotlendir.

9.40:47: Vélin sést í síðasta sinn á ratsjám, þá var hún í 6.175 fetum og aðeins um 2.000 fetum yfir frönsku Ölpunum. Á síðustu sekúndum upptökunnar má heyra öskur farþeganna.

Það tók því vélina 10 mínutur að brotlenda, frá því að sjálfstýringunni var breytt. Allan tímann segir aðstoðarflugmaðurinn ekki eitt orð.

Flugstjórinn reyndi með öllum ráðum að komast inn í flugstjórnarklefann. Hann komst ekki inn, þrátt fyrir að banka og, að því er nú hefur komið fram, höggva með öxi í hurðina. Það mátti einnig heyra viðvörunarbjöllur glymja á upptökunni.

Ekkert neyðarkall var sent.

Vélin lækkaði flugið um 3-4.000 fet á mínútu. Flugumferðarstjórn reyndi ítrekað að ná sambandi við vélina, en án árangurs.

Öskrin sem heyrast á síðustu sekúndum upptökunnar voru í farþegum vélarinnar. Robin saksóknari segir að þar til á síðustu stundu hafi þeir ekki gert sér grein fyrir í hvað stefndi.

Vélin hafnaði á fjallinu á 700 km hraða á klukkustund og tættist í sundur um alla fjallshlíðina. Allir sem voru um borð fórust samstundis.

Leitað að braki og líkamsleifum í hlíðum fjallanna þar sem …
Leitað að braki og líkamsleifum í hlíðum fjallanna þar sem vélin fórst. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert