Fyrrum kærasta Lubitz tjáir sig

Fjallabjörgunarsveitir rannsaka svæðið í frönsku Ölpunum þar sem þotan brotlenti.
Fjallabjörgunarsveitir rannsaka svæðið í frönsku Ölpunum þar sem þotan brotlenti. AFP

Þýska dagblaðið Bild birtir í dag frétt þar sem rætt er við konu sem sögð er fyrrverandi kærasta flugmannsins Andreas Lubitz, sem grandaði farþegaþotu Germanwings. Lýsir hún því að Lubitz hafi verið veikur á geði. 

Konan, sem starfar sem flugfreyja, vill ekki láta nafns síns getið en er í greininni kölluð Maria W. Hún lýsir Lubitz sem vingjarnlegum manni sem glími þó augljóslega við geðræn vandamál. Hún segir þau hafi verið að hittast í fimm mánuði í fyrra. 

Að sögn hennar átti Lubitz það til að vakna öskrandi um miðjarnætur. Þá átti hann það einnig til að æsa sig í samræðum og í eitt skipti hafi hann læst sig inni á klósetti í drjúga stund. 

Þá á Lubitz að hafa kvartað mikið yfir vinnuálagi og hann hafði miklar áhyggjur af starfssamningi sínum og launum. Maria W. segir að með tímanum hafi hún orðið hrædd við hann. 

„Ég hætti með honum því það varð alltaf augljósara og augljósara að hann glímdi við vandamál,“ segir hún í samtali við dagblaðið.

Þegar hún heyrði um flugslysið og það hvernig rannsakendur slyssins töldu Lubitz hafa grandað vélinni vísvitandi, hafi hún allt í einu munað það sem Lubitz sagði eitt sinn við hana.

„Það var ein setning sem skaust upp í huga mér: Einn dag mun ég gera eitthvað sem breytir öllu, og í kjölfarið munu allir þekkja nafnið mitt og muna eftir mér,“ á Lubitz að hafa sagt við konuna.

„Ég skildi aldrei hvað hann átti við en nú skil ég það,“ bætir konan við.

Lubitz á að hafa viðurkennt við Mariu W. að hann hafi leitað sér aðstoðar sálfræðings en hann ræddi það aldrei ítarlega.

Aðspurð hvers vegna hún telji að hann hafi steypt 149 farþegum með sér til dauða segir hún: „Hann gerði það sennilega vegna þess að hann var búinn að átta sig á að hann myndi aldrei fá starf hjá Lufthansa sem flugstjóri. Ég veit ekki hvort ástarsorg hafi einnig verið í spilunum,“ segir Maria W.

Andreas Lubitz.
Andreas Lubitz. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert