Skaut lögreglumann í andlitið

AFP

Lögreglumanni frá Boston í Bandaríkjunum er enn haldið sofandi, eftir að hann var skotinn í andlitið á föstudagskvöld. 

Hann hafði verið í hópi lögregluþjóna sem stöðvuðu bíl manns sem grunaður var um að hafa hleypt af byssu sinni fyrr um kvöldið. Byssumaðurinn skaut lögreglumanninn, en hinir lögregluþjónarnir enduðu með því að skjóta byssumanninn til bana.

Lögregluþjónninn, hinn 34 ára gamli John Moynihan, var skotinn rétt fyrir neðan hægra augað og er byssukúlan enn undir hægra eyra hans. Liggur hann mjög þungt haldinn.

„Hann er sterkur og ég er viss um að hann kemst í gegnum þetta,“ sagði William Evans, yfirlögregluþjónn á svæðinu. Grannt er fylgst með ástandi Moynihans og því hvort hætta sé á heilablæðingu. 

Moynihan var ásamt fimm öðrum lögregluþjónum sem stöðvuðu bíl í Roxbury-hverfinu eftir að heyrst hafði í byssuskotum. Lögregluþjónarnir höfðu ekki tekið fram nein vopn, en þegar Moynihan gekk upp að bílnum dró hinn grunaði fram byssu og skaut hann af stuttu færi.

Maðurinn hélt áfram að skjóta að hinum lögregluþjónunum áður en skotin í byssu hans kláruðust. Þá tóku lögregluþjónarnir upp vopn sín og skutu hann til bana. Í myndbandsupptöku sem náðist á öryggismyndavél má sjá alla atburðarásina, og er hún notuð við rannsókn málsins.

Hinn grunaði, Angelo West, hafði ítrekað komist í kast við lögin og var mjög ofbeldisfullur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert