Áttu að mæta í matarboð í gær

Hjónin bjuggu í bænum Xalo á Benidorm á Spáni en …
Hjónin bjuggu í bænum Xalo á Benidorm á Spáni en hann er um 80 kílómetrum austur af Alicante. Ljósmynd/Wikipedia

Hjónin Jean og Peter Tarsey fundust látin í einbýlishúsi í bænum Xalo á Spáni í gær en hann er um 80 kílómetrum austur af Alicante. Þau voru breskir ríkisborgarar en höfðu búið á Spáni í 18 ár.

Lögregla telur að hjónin hafi verið myrt en þau fundust í faðmlögum í sófa í húsi þeirra en á líkömum þeirra eru skotsár. Þá er einnig talið að nokkrir dagar séu frá morðinu.

Frétt mbl.is: Fundust látin í faðmlögum

Það voru vinir hjónanna sem fundu þau látin um fjögurleytið í gær. Þau höfðu boðið Jean og Peter í mat en þegar þau létu ekki sjá sig höfðu vinirnir áhyggjur og leituðu að þeim.

Lögregla rannsakar nú hvort um hafi verið að ræða innbrot eða rán sem hafi farið úrskeiðis. Þegar lögregla kom á vettvang vantaði eitt sjónvarpstæki en ekki var búið að opna öryggisskáp á heimilinu. Talið er að hjónin hafi verið skotin með skammbyssu en ekkert vopn fannst á heimilinu.

Um 3.100 manns búa í bænum Xalo á Spáni.

Maðurinn keppti í dýfingum fyrir Bretland á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu árið 1956. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert