Vilja endurskoða trúnaðarreglur

Frá minningarathöfn um fórnarlömb fjöldamorðsins í Notre-Dame-du-bourg-dómkirkjunni í Digne-les-Bains, nærri …
Frá minningarathöfn um fórnarlömb fjöldamorðsins í Notre-Dame-du-bourg-dómkirkjunni í Digne-les-Bains, nærri svæðinu þar sem vélin brotlenti. AFP

Fregnir þess efnis að flugmaðurinn, sem talinn er hafa grandað farþegaþotu Germanwings í frönsku Ölpunum, hafi haldið því leyndu fyrir vinnuveitanda sínum að hann átti við andleg veikindi að stríða, hefur vakið umræðu í Þýskalandi um rétt sjúklinga til friðhelgi einkalífs.

Alls létu 150 lífið þegar vélin brotlenti en harmleikurinn hefur vakið upp spurningar um hvort trúnaður lækna gagnvart sjúklingum sínum eigi ekki að víkja þegar um er að ræða mögulega ógn við öryggi almennings.

Sérfræðingur í samgöngumálum, úr röðum Kristilegra demókrata, hefur sagt að rýmka þurfi trúnaðarskyldu lækna þegar skjólstæðingar þeirra starfa á ákveðnum sviðum. Atvinnumenn á borð við flugmenn „ættu eingöngu að ganga til lækna sem hafa verið tilgreindir af atvinnurekanda þeirra,“ sagði Dirk Fischer í samtali við dagblaðið Rheinische post.

Þá sagði hann að þeir læknar ættu að geta rætt málefni viðkomandi við atvinnurekandann og flugmálayfirvöld.

Þingmaðurinn Thomas Jarzombek, einnig úr röðum Kristilegra demókrata, hefur kallað eftir því að sett verði á fót nefnd sérfræðinga til að rannsaka hvernig meðhöndla megi veikindi þeirra sem hafa velferð fjölda fólks í höndum sér í starfi sínu.

Var ekki kunnugt um veikindin

Þýskir saksóknarar sögðu í dag að Lubitz hefði greinst með sjálfsvígshugsanir fyrir nokkrum árum og að meðferð hans hefði enn staðið yfir þegar hann grandaði vélinni. Þrátt fyrir að dregið hefði úr einkennum hafði læknir skrifað undir veikindavottorð fyrir hann, fyrir daginn sem atvikið átti sér stað.

Fjölmiðlar hafa sagt frá því að Lubitz hafi verið á lyfjum við alvarlegu þunglyndi og í meðferð vegna sjóntruflana. Rannsakandur segja að samkvæmt upptökum úr flugstjórnaklefa vélarinnar hafi Lubitz verið þögull og andað rólega þegar hann læsti dyrunum að klefanum og brotlenti vélinni.

Stjórnendur Lufthansa, eiganda Germanwings, hafa sagt að þeim hafi ekki verið kunnugt um veikindi Lubitz sem gerðu hann óhæfan til að fljúga. Þá hefði hvorki hegðun hans né störf gefið tilefni til áhyggja.

Trúnaður mannréttindi

Í Þýskalandi og víðar eru þær skyldur lagðar á herðar lækna að þeir haldi trúnað við sjúklinga sína, jafnvel eftir dauða. Frá þessari reglu má aðeins víkja ef sjúklingur gefur til þess leyfi eða til að koma í veg fyrir alvarlegan glæp eða dauða.

Formaður þýsku læknasamtakanna, Frank Ulrich Montgomery, hefur hvatt til þess að menn stígi varlega til jarðar í umræðunni um rýmkun reglanna, m.a. vegna þess að réttur sjúklinga til friðhelgis einkalífs séu mannréttindi allra ríkisborgara Þýskalands.

Þá hefur dagblaðið Die Welt vakið athygli á því að það að setja trúnaðarsambandi lækna og sjúklinga skorður geti haft varhugaverðar afleiðingar. „Lögreglumenn eiga jafnframt rétt... á opinskáu samtali við lækni, án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að vinnuveitandi þeirra fái að heyra af því.“

Andreas Lubitz.
Andreas Lubitz. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert