Fjölskylda send aftur til Jemen

Erna Solberg er forsætisráðherra Noregs
Erna Solberg er forsætisráðherra Noregs AFP

Tíu ára gamalli stúlku, Shaimaa, var vísað úr landi í Noregi í fyrra og hún send ásamt móður og systkinum til Jemen eftir að hafa verið í sjö ár i Noregi. Stuðningshópur Shaimaa hefur ekki náð sambandi við fjölskylduna undanfarna daga en stöðugar loftárásir eru gerðar á landið. Fyrir fimm dögum hófu Sádi-Arabar innrás í Jemen og í gær greindu samtökin læknar án landamæra frá því að 50 hefðu týnt lífi og þrjátíu særst í árás sem gerð var á búðir flóttamanna í Jeman.

Að sögn Naciye Øzturk sem er í stuðningshóp Shaimaa hafa þau verið í daglegu sambandi við fjölskylduna eftir að henni var vísað úr landi en nú hefur ekki náðst samband við þau í nokkra daga. „Við vonum að þau séu heil á húfi, segir Øzturk í samtali við Aftenposten. 

Móðir Shaimaa sótti um hæli í Noregi en var vísað frá landinu í nóvember í fyrra ásamt börnum sínum þremur. Þá hafði fjölskyldan búið í Noregi í sjö ár. 

Øzturk segir að hún hafi gert allt sem í hennar valdi standi til að ná sambandi við móður Shaimaa, Afran Yusuf, án árangurs en Yusuf eignaðist barn fyrir mánuði og er ein með börnin fjögur. Í viðtali við bt.no kemur fram að íbúar Sanaa flýi höfuðborgina og Øzturk óttast velferð fjölskyldunnar. „Ég skil ekki hvernig Noregur gat sent þau til baka,“ segir hún.

Það sé ótrúleg þversögn að senda fjölskylduna til baka á þessum tímapunkti. Það sé eitthvað sem norsk yfirvöld hefðu átt að gera sér grein fyrir, þeirri spennu sem ríkir þar. Huthi-fylking sjíamúslíma lagði undir sig höfuðborgina Sana'a í fyrra og forsetinn, Abdo Rabbu Mansour Hadi, hefur flúið land.

„Vandinn er að Íranar, helstu keppinautar Sádi-Araba um áhrif á svæðinu, styðja Huthi-menn. Svo gæti farið að ráðamenn í Washington lendi í þeirri vandasömu stöðu að styðja andstæðinga Írana í Jemen en þiggja samt með ánægju aðstoð klerkastjórnarinnar við að kveða niður grimmdarseggina í Ríki íslams, IS.

Jemen gæti orðið vígvöllur þar sem annars vegar Sádi-Arabía, með stuðningi níu annarra arabaríkja og þegjandi samþykki Bandaríkjamanna, og hins vegar Íran berjast með því að styðja hvor sinn aðilann í Jemen. Slík átök eru á ensku nefnd proxy-stríð. Deilt er um það hvort um sé að ræða hin dæmigerðu átök milli súnní- og sjía-múslíma sem öðru hverju hafa blossað upp í arabalöndum í nærri 14 aldir. Margir stjórnmálaskýrendur segja að trúin sé oft yfirvarp. Huthi-menn tortryggi að vísu Sádi-Araba en hafi gert uppreisn vegna gegndarlausrar spillingar og vanhæfni stjórnar Hadis og fyrirrennara hans. Ráðamenn í Sana'a hafi auk þess ávallt hunsað héruð Huthi-manna. Þess má geta að þrátt fyrir hernaðarsigra sína hafa Huthi-menn ávallt lagt áherslu á að þeir vilji semja um friðsamlega lausn.

Jemen er á suðvesturhluta Arabíuskagans. Ríkið er hernaðarlega mikilvægt, m.a. vegna þess að það ræður yfir hinu fræga Bab-el-Mandeb, þröngu sundi inn í sjálft Rauðahafið, með suðurenda Súesskurðarins. Um 20.000 skip sigla um sundið ár hvert. Landamæri Jemens að Sádi-Arabíu, alræmd smyglleið fyrir fólk og ýmsan varning, eru líka uppspretta stöðugs núnings við grannlandið.

Íbúar Jemen eru um 24 milljónir, flestir arabar en einnig eru í Jemen ýmis þjóðarbrot, þ.ám. Íranar. Og þar búa um 100 þúsund Indverjar. Rösklega helmingur landsmanna tilheyrir súnní-íslam, hinir eru flestir sjía-múslímar,“ segir í grein sem Kristján Jónsson skrifaði í Sunnudagsmoggann um liðna helgi.

Shaimaa og fjölskylda hennar er síðasta barnafjölskyldan sem norsk yfirvöld sendu úr landi til Jemen. Stuðningshópurinn er að reyna að fá norsk yfirvöld til þess að heimila Shaimaa og fjölskyldu hennar að snúa aftur til Lillesand. Það geri þau vegna borgarastyrjaldarinnar í Jemen því að annars hefðu þau frekar sent þeim peninga til Jemen. En miðað við stjórnmálaástandið þar þá sé líf þeirra í hættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert