Eins og svarthol úr vísindaskáldsögu

Fellibylurinn Maysak sem stefnir á Filippseyjar hefur þegar valdið eyðileggingu og dauða í Kyrrahafi. Umfang stormsins er ekki síst greinilega frá geimnum en geimfarinn Terry W. Virts í Alþjóðlegu geimstöðinni líkir Maysak við svarthol úr vísindaskáldsögu.

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Míkrónesíu vegna Maysak en að minnsta kosti fimm eru látnir í ríkinu Chuuk og 95% allra bygginga á eyjunni eru rústir einnar eftir að fellibylurinn gekk þar yfir. Hann stefnir nú á Filippseyjar.

Geimfarar í Alþjóðlegu geimstöðinni sem svífa um í rúmlega 400 kílómetra hæð yfir yfirborði jarðar hafa fylgst með Maysak og birt myndir af fellibylnum á Twitter-síðum sínum. Virts birti nokkrar stórbrotnar en ógnvekjandi myndir af Maysak í dag.

„Séð niður í augað, það langstærsta sem ég hef séð. Það virtist eins og svarhol í vísindaskáldsögumynd,“ skrifaði Virts á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert