Fundu lík hermanna í helli

Frá Palau.
Frá Palau. AFP

Lík sex manna, sem talin eru vera af japönskum hermönnum sem börðust í síðari heimsstyrjöldinni, fundust í helli á Kyrrahafseyjunni Palau.

Á eyjunni voru háðir harðir bardgar árið 1944 milli Japana og Bandaríkjamanna. Margir féllu í átökunum. Talið er að um 10 þúsund japanskir hermenn hafi fallið. Lík 2.600 þeirra fundust aldrei. Ávallt hefur verið talið að líkin gæti verið að finna í hellum þeim sem eru víðsvegar um eyjuna.

Margvíslegum gildrum var komið upp í hellunum, m.a. sprengiefnum, og því voru þeir girtir af og lokaðir í kjölfar átakanna.

Í frétt AFP kemur fram að einn þeirra hafi verið opnaður nýverið í fyrsta sinn í um sjötíu ár. Var það gert í tilefni af heimsókn Akihito Japanskeisara sem verður í þessum mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert