Konur muni síður leita aðstoðar

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Purvi Patel hefur verið dæmd í 20 ára fangelsi fyrir fósturmorð, en um er að ræða fyrsta mál sinnar tegundar í Bandaríkjunum. Aðgerðasinnar óttast nú að lög sem sett voru til að vernda konur gegn ólöglegum fóstureyðingum, verð notuð gegn þeim.

Læknar höfðu samband við lögreglu þegar Patel, 33 ára, leitaði læknisaðstoðar á St. Joseph Regional Medical Center í Indiana. Mikla blæðingu lagði frá kynfærum hennar og við skoðun kom naflastrengur í ljós.

Þegar henni var tilkynnt um að fulltrúar væru á leið heim til hennar, sagði Patel læknum sínum frá því að hún hefði misst fóstur og komið því fyrir í ruslagámi við verslunarmiðstöð. Einn lækna hennar, Kelly McGuire, fylgdi lögreglu á staðinn, skoðaði fóstrið og úrskurðaði það látið.

Patel var ákærð fyrir vanrækslu og síðar morð.

Samkvæmt löggjöf Indiana er ólöglegt að binda enda á meðgöngu, nema í þeim tilgangi að koma af stað fæðingu, fjarlægja látið fóstur eða framkvæma löglega fóstureyðingu.

Patel sagði lögreglu að hún hefði haft vitneskju um óléttuna í þrjár vikur þegar hún fór að fá verki í vinnunni í júlí 2013. Hún fór á salernið, þar sem henni blæddi mikið og þar sem hún fann fóstrið í blóðinu. Hún sagðist hafa reynt að endurlífga fóstrið en það hefði ekki tekist.

Aðspurð að því hvers vegna hún hringdi ekki í 911 sagði Patel að hún hefði verið í sjokki vegna þess hversu mikið blóð hún hefði misst. Hún hefði ekki vitað hvað hún ætti að gera og hefði gripið til þess ráðs að setja fóstrið í poka og setja það í ruslagáminn.

Síðar sagði Patel að hún hefið ekki viljað að foreldrar hennar kæmust að því hvað hefði gerst, en þeir eru strangtrúaðir hindúar.

Þrátt fyrir að Patel segði að um fósturmissi hefði verið að ræða, héldu saksóknarar því fram að hún hefði reynt að framkvæma fóstureyðingu með því að taka lyf sem hún nálgaðist á netinu. Patel hafði sagt vini sínum frá því að hún væri að taka slík lyf, en engin ummerki fundust um þau í líkama hennar né fóstursins.

Þá var Patel einnig ákærð fyrir vanrækslu og reyndu saksóknarar að sýna fram á að barnið hefði fæðst lifandi, en verjendur konunnar bentu á að ákæruvaldinu væri ekki fært að saka hana bæði um að hafa myrt ófætt barn sitt og yfirgefa lifandi barn.

Kviðdómur úrskurðaði hins vegar saksóknurum í vil, en málinu verður áfrýjað.

Aðgerðasinnar, t.d. Sara Ainsworth hjá National Advocates for Pregnant Women, óttast að dómurinn muni verða til þess að konur veigri sér við því að leita læknisaðstoðar í tengslum við fóstureyðingar eða fósturlát.

„Indiana ætti ekki að ganga í raðir þeirra landa þar sem tíðni sjálfsmorða meðal ungra óléttra stúlkna er ógnvænlega há; óléttar konur forðast að leita læknisaðstoðar af ótta við að hverskyns vandamál á meðgöngu verði tilkynnt til lögreglu; og þar sem mæður eru ekki bara fangelsaðar fyrir fóstureyðingar, heldur einnig fyrir að missa fóstur eða andvana fæðingar,“ segir Ainsworth.

Washington Post sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert