Myndskeið komið í leitirnar?

Þota flugfélagsins Germanwings fer af stað frá flugvellinum í Kölen …
Þota flugfélagsins Germanwings fer af stað frá flugvellinum í Kölen á mánudaginn. AFP

Myndskeið sem tekið var af farþega um borð í farþegaþotu Germanwings, stuttu áður en vélinni var grandað á að vera komið í leitirnar. Þýskir og franskir fjölmiðlar segja frá þessu í dag. Einn þeirra sem fer fyrir rannsókn málisins í Frakklandi hefur þó neitað tilvist myndskeiðsins. 

The Independent segir frá þessu og vitnar í franska dagblaðið Paris Match og þýska blaðið Bild. Sky-sjónvarpsstöðin segir einnig frá málinu.

Á myndskeiðið að hafa fundist á minniskorti sem talið er koma úr farsíma eins farþegans. Á myndskeiðinu má sjá fólk öskra „Guð minn góður“ á nokkrum tungumálum. Má einnig heyra málmhögg sem rekja má til tilrauna flugstjórnas til þess að komast aftur inn í flugstjórnarklefann.

Eins og sagt hefur verið frá er talið að aðstoðarflugmaðurinn Andreas Lubitz hafi meinaði flugstjóranum aftur inn í flugstjórnarklefann eftir að hann fór á salernið. Er jafnframt talið að Lubitz hafi grandað vélinni viljandi, en 150 manns létust er þotan hrapaði í frönsku Ölpunum í síðustu viku. 

Verða öskrin í myndskeiðinu enn hærri er vélin stefnir beint á fjallið samkvæmt fréttum blaðanna. Í grein Paris Match kemur fram að minniskortið hafi fundist í braki vélarinnar af heimildarmanni blaðsins sem starfar við rannsóknina. 

Hinsvegar hefur undirofurstinn Jean-Marc Menichini, sem er einn þeirra sem stjórnar rannsókninni, neitað því að myndefni úr farsíma hafi fundist í flaki vélarinnar. 

Þýska dagblaðið Bild, sem segist einnig hafa fengið aðgang að myndefninu segir í blaðinu í dag að þó svo að vettvangur þess sé í óreiðu og að myndin titri sýni myndskeiðið augljóslega örvæntinguna sem var um borð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert