Skar líkið niður í litla bita

Detlev Guenzel var dæmdur í átta ára fangelsi í dag.
Detlev Guenzel var dæmdur í átta ára fangelsi í dag. AFP

Þýskur maður var í dag dæmdur í átta ára og sex mánaða fangelsi fyrir að myrða mann sem hann kynntist á vefsíðu fyrir þá sem eru með blæti fyrir mannáti. Var maðurinn, sem er fyrrverandi lögreglumaður dæmdur sekur fyrir morð og fyrir að raska ró hinna látnu.

Heitir maðurinn Detlev Guenzel og er 57 ára gamall. Var hann fundinn sekur um að hafa myrt hinn pólska Wojciech Stempniewicz á heimili sínu í þýska bænum Hartmannsdorf-Reichenau nálægt landamærum Þýskalands og Tékklands í nóvember 2013.

Samkvæmt frétt AFP-fréttaveitunnar sat Guenzel ósnortinn með krosslagðar hendur er dómurinn var lesinn í réttarsalnum í dag. 

Á Guenzel að hafa skorið lík mannsins í litla bita áður en hann gróf þá í garði sínum. Ekki hefur verið hægt að sanna að Guenzel hafi borðað einhvern hluta af líkama fórnarlambsins. 

Saksóknarar sóttust eftir 10 og hálfs árs fangelsisdóms yfir Guenzel en hann á þrjú uppkomin börn. Hafa nágrannar lýst honum sem vinalegum, örlátum og kurteisum manni.  Lögfræðingar fjölskyldu fórnarlambsins sóttust hinsvegar eftir hámarksrefsingu sem er fimmtán ára fangelsi. 

Mennirnir kynntust í október 2013 á vefsíðu sem birtir fantasíur um slátrun og mannát. Á síðunni eru rúmlega 3000 skráðir notendur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert