Tæplega 20 þúsund á dauðadeildum

Tæplega 20 þúsund fangar eru á dauðadeildum víða um heim …
Tæplega 20 þúsund fangar eru á dauðadeildum víða um heim og samkvæmt Amnesty International var dauðarefsingum beitt í 22 löndum í fyrra. Amnesty International

Þrátt fyrir að aftökum hafi fækkað í heiminum á síðasta ári þá hefur þeim fjölgað sem eru dæmdir til dauða. Þar skera tvö ríki sig úr: Egyptaland og Nígería. 607 voru teknir af lífi í fyrra, samkvæmt opinberum tölum, sem er 22% fækkun milli ára. Kína er ekki inni í þeirri tölu en árið 2014 voru aftökurnar fleiri í Kína heldur en samanlagt annars staðar í heiminum.

Samkvæmt nýrri skýrslu Amnesty International biðu um áramótin á milli 19 og 20 þúsund manns þess á dauðadeildum út um allan heim að vera teknir af lífi í refsingarskyni.

Dauðadómum beitt í innanríkisátökum

Að minnsta kosti 2.466 voru dæmdir til dauða í fyrra sem er 28% aukning frá árinu 2013. Þetta þýðir að um 500 fleiri bíða nú aftöku í heiminum en fyrir ári síðan. Langflestir bættust í þennan hóp í Egyptalandi og Nígeríu en í þessum ríkjum ríkir mikill óstöðugleiki og innanríkisátök. Engin breyting hefur orðið á fjölda þeirra ríkja sem tóku fanga af lífi í fyrra en þau eru 22 talsins. Það eru hins vegar mun færri en fyrir tveimur áratugum þegar aftökur fóru fram í 42 löndum heims.

Á síðasta ári fengu 112 fangar á dauðadeild lausn í níu löndum, samkvæmt upplýsingum Amnesty International. Í Bangladess voru þeir fjórir, 2 í Kína, 1 í Jórdaníu, 32 í Nígeríu, 4 í Súdan, 59 í Tansaníu og sjö í Bandaríkjunum. 2 í Víetnam og einn í Simbabve. Í einhverjum tilvikum er um að ræða fanga sem í ljós kom að voru saklausir af þeim glæpum sem þeir voru dæmdir til dauða fyrir.

Dæmd til að vera grýtt til bana fyrir hórdóm

Ríki heims beita hinum ýmsu aðferðum við að taka fólk af lífi. Má þar nefna lyfjagjöf, aftökusveitir, fangar eru hengdir eða hálshöggnir. Enginn var tekinn af lífi með því að vera grýttur til bana í fyrra af opinberum dómstólum en ein kona var dæmd til dauða með þeirri aðferð árið 2014 í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Hún hafði haldið fram hjá eiginmanni sínum. Opinberar aftökur fóru fram í tveimur löndum, Íran og Sádi-Arabíu.

Ógna rétti fólks til lífs

Framkvæmdastjóri Amnesty International, Salil Shetty, segir að tölurnar tali sínu máli. „Dauðarefsing er eitthvað sem tilheyrir fortíðinni. Þau fáu ríki sem enn beita aftökum ættu að líta í eigin barm og spyrja sig hvort þau vilji halda áfram að ógna réttinum til lífs, eða bætast í hóp þeirra meirihluta ríkja sem hafa afnumið þessa grimmdarlegur og ómannúðlegu refsingu,“segir Shetty.

Hann segir að ríkisstjórnir noti dauðadóma í vonlausri baráttu við að blekkja sig sjálfar. „Það eru engin gögn til sem sýna fram á að ótti við aftökur valdi því að fólk fremji síður glæpi heldur en aðrar refsingar,“ segir Shetty.

Hann segir að það sé skammarlegt hversu mörg ríki heims hafi líf fólks að leiksoppi með því að dæma það til dauða fyrir „hryðjuverk“ eða til þess að binda enda á innanríkisátök.

Enn á ný voru flestir teknir af lífi í Kína á síðasta ári. Amnesty International telur að þúsundir séu teknir af lífi og dæmdir til dauða í Kína á hverju ári en leynt er farið með þessar upplýsingar af hálfu stjórnvalda þar í landi.

Íran skipar annað sætið á listanum yfir fjölda aftaka en þar voru 289 teknir af lífi, samkvæmt opinberum tölum en talið er að 454 hið minnsta hafi verið teknir af lífi þar í fyrra. Í Sádi-Arabíu voru aftökurnar 90 hið minnsta, 61 í Írak og 35 voru teknir af lífi í Bandaríkjunum.

Fram kemur í skýrslu Amnesty International að búast megi við því aftökurnar verði mun fleiri í Pakistan en áður þar sem stjórnvöld þar hafi byrjað að taka fanga af lífi undir lok árs eða eftir hryllilega árás talibana á skóla í landinu sem kostaði fleiri hundruð lífið.

Ef litið er til heimsálfa þá eru Bandaríkin eina landið í Ameríku sem beitir dauðarefsingum. Aðeins sjö ríki Bandaríkjanna tóku fanga af lífi í fyrra og voru 35 teknir af lífi í fyrra samanborið við 39 árið 2013.

Níu ríki Asíu og Kyrrahafsríki tóku fanga af lífi í fyrra. Alls voru aftökurnar 32 talsins en inni í þeirri tölu eru hvorki aftökur í Kína og Norður-Kóreu þar sem engar marktækar tölur eru til frá löndunum tveimur. Í Indónesíu er stefnt að þó nokkrum aftökum í ár og eru það einkum eiturlyfjasmyglarar sem verða teknir af lífi í ár.

Færri aftökur í ríkjum sunnan Sahara

Þrjú ríki Afríku sunnan Sahara tóku 46 af lífi á síðasta ári sem er 28% fækkun frá 2013 þegar 64 voru teknir af lífi í fimm ríkjum álfunnar. Þau þrjú ríki sem vitað er að tóku fanga af lífi eru Gínea, Sómalía og Súdan.

Hvíta Rússland er eina land Evrópu og Mið-Asíu sem tekur fólk af lífi í refsingarskyni en árið 2014 voru þrír teknir af lífi í landinu af hinu opinbera. Þetta eru fyrstu aftökurnar í Hvíta-Rússlandi í tvö ár og fóru þær fram með mikilli leynd. Svo mikilli að hvorki fjölskyldur né lögmenn þeirra sem voru teknir af lífi fengu upplýsingar um aftökurnar fyrr en eftir að þær höfðu farið fram.

En í Miðausturlöndum og Norður-Afríku eru aftökur nánast daglegt brauð en í Íran, Írak og Sádi-Arabíu skipta þar mestu tölulega séð því 90% af aftökum á svæðinu voru í þessum þremur löndum. Þeim hefur hins vegar fækkað á milli ára, að minnsta kosti benda opinberar tölur til þess, en vitað er að hundruð hafa verið tekin af lífi í Íran án þess að þess sé getið í upplýsingum frá stjórnvöldum.

Stakk mann til bana sem reyndi að nauðga henni og var tekin af lífi

Samkvæmt upplýsingum Amnesty International tóku írönsk yfirvöld 743 af lífi árið 2013 en opinberar tölur segja að 289 hafi verið teknir af lífi. Í átta löndum var alls 491 fangi tekinn af lífi í fyrra samkvæmt opinberum tölum en árið 2013 voru þeir 638 talsins.

Ein þeirra sem tekin var af lífi í Íran í fyrra er Reyhaneh Jabbari en hún var tekin af lífi í fangelsi í Karaj þann 25. október fyrir að hafa myrt Morteza Abdolali Sarbandi, fyrrverandi starfsmann ráðuneytis leyniþjónustunnar. Hún var handtekin árið 2007 og játaði að hafa stungið hann strax við handtökuna. Hún segir að um sjálfsvörn hafi verið að ræða eftir að hann reyndi að nauðga henni.

Í kjölfar handtökunnar var henni haldið í einangrunarklefa í tvo mánuði og fékk hvorki að hitta lögfræðing né fjölskyldu. Hún var síðan dæmd til dauða samkvæmt „qesas“ (auga fyrir auga/tönn fyrir tönn) árið 2009 og staðfesti hæstiréttur dóminn. Dómar sem þessir (qesas) eru ófrávíkjanlegir og ekki hægt að veita sakaruppgjöf. Hægt er að lesa um fleiri dauðadóma frá síðasta ári í skýrslu Amnesty International sem fylgir með fréttinni.

Amnesty International hefur upplýsingar um að 14 hið minnsta voru teknir af lífi í Íran fyrir glæpi sem þeir áttu að hafa framið áður en þeir náðu átján ára aldri. Eins voru börn dæmd til dauða í fyrra í Egyptalandi, Íran og Sri Lanka. Slíkir dauðadómar eru brot á alþjóðalögum og samkvæmt ársskýrslu Amnesty eru aftökurnar undir því yfirskini að aldur viðkomandi hafi ekki legið fyrir.

Eins eru dæmi um að fólk sem glímir við andleg veikindi eða þroskahömlun hafi verið tekið af lífi í nokkrum löndum í fyrra, þar á meðal Bandaríkjunum.

Myndskeið frá Amnesty International

Amnesty International birti í dag ársskýrslu sína um dauðarefsingar
Amnesty International birti í dag ársskýrslu sína um dauðarefsingar Amnesty International
Amnesty International
Amnesty International
Amnesty International
Amnesty International
Maria Elvira Pinto Exposto á yfir höfði sér dauðadóm fyrir …
Maria Elvira Pinto Exposto á yfir höfði sér dauðadóm fyrir eiturlyfjasmygl í Malasíu AFP
Serge Atlaoui ásamt lögmanni sínum Nancy Yuliana Sanjot bíður á …
Serge Atlaoui ásamt lögmanni sínum Nancy Yuliana Sanjot bíður á dauðadeild í Indónesíu en hann verður tekinn af lífi fljótlega fyrir brot á fíkniefnalöggjöf landsins. AFP
Tveir Ástralir bíða þess nú að verða teknir af lífi …
Tveir Ástralir bíða þess nú að verða teknir af lífi fyrir fíkniefnabrot á Bali EPA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert