Maður skotinn til bana í Gautaborg

AFP

Maður á sextugsaldri var skotinn til bana í Hisingen-hverfinu í Gautaborg í gærkvöldi. Annar maður særðist í annarri skotárás í borginni í gær en mjög óljósar fregnir hafa borist af þeirri árás.

Fjórir menn á þrítugsaldri voru handteknir í tengslum við árásina á manninn sem lést. Sá var 55 ára aldri. Fjórmenningarnir voru allir undir áhrifum fíkniefna þegar þeir voru handteknir. Þeir eru grunaðir um að hafa myrt manninn, en í einhverjum fjölmiðlum er talað um að jafnvel hafi þeir skotið hann fyrir misskilning en sonur hans er þekktur glæpamaður.

Samkvæmt fréttum sænskra fjölmiðla var lögreglan kölluð að fjölbýlishúsi í Brämaregården á tíunda tímanum í gærkvöldi. Þar fannst maðurinn alvarlega særður en á lífi. Hann lést síðan á sjúkrahúsi í morgun af sárum sínum.

Árásin í gærkvöldi var gerð í um fimm km fjarlægð frá barnum þar sem tveir voru skotnir til bana og átta særðir í mars. 

Glæpagengi berjast um yfirráðin á eiturlyfjamarkaði í hverfinu og eru skotárásir ekki óalgengar þar. 

Fjórtán hafa látist á tveimur árum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert