Elítan fær ekki verðlaunaféð

Dennis Kimetto frá Kenýu sigraði Berlínarmaraþonið árið 2014.
Dennis Kimetto frá Kenýu sigraði Berlínarmaraþonið árið 2014. AFP

Stjórnendur Stokkhólmsmaraþonsins hafa ákveðið að breyta reglum um verðlaunafé í hlaupinu. Í stað þess að greiða sigurvegaranum féð, alls 250 þúsund sænskar krónur, fær besti hlauparinn af Norðurlöndunum alla upphæðina.

Frá árinu 2002 hafa hlauparar frá Austur-Afríkuríkjum unnið hlaupið með aðeins einni undantekningu. Gagnrýnendum finnst að verið sé að mismuna hlaupurum frá suðrænni ríkjum. Skipuleggjendur hlaupsins segja það eðlilegt að verðlauna ekki þá hlaupara úr röðum bestu hlaupara heims, sem fá boðsmiða í hlaupið.

Skipuleggjendur maraþonsins í Utrecht í Hollandi gerðu svipað árið 2011. Eftir gríðarlega gagnrýni og ásakanir um kynþáttamismunun ákváðu þeir að hætta við framkvæmdina ári síðar.

Margir benda á að leggja þurfi inn hvata til þess að fleiri Evrópubúar fari að stunda langhlaup og í Bandaríkjunum tíðkast það að greiða verðlaunafé til besta Bandaríkjamanns í langhlaupum. Það sé gert til að veita innlendum hlaupurum fjárhagslegan stuðning og vonast til að þeir haldi áfram að einbeita sér að langhlaupum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert