„Fjöldagröf í Miðjarðarhafinu“

AFP

Hræðilegt stórslys átti sér í gær þegar fiskiskipi fullu af örvæntingarfullum flóttamönnum hvolfdi í Miðjarðarhafinu á milli Möltu og Líbýu. Er þetta eitt af mörgum stórslysum sem hafa átt sér stað á svæðinu undanfarin ár. Á síðustu tveimur mánuðum hafa um 1.600 manns látið lífið í svipuðum slysum. Um borði í skipinu sem fórst í gær voru 700 manns. Hingað til hefur tekist að bjarga 28 manns, en óttast er um afdrif hinna. 

„Fólk sem ég hef talað við segist hafa séð hundruð látna einstaklinga fljótandi um í hafinu,“ segir blaðamaðurinn Mark Micallef frá dagblaðinu Times of Malta í samtali við fréttaveituna TT.

Oft er talað um flóttamannatímabilið - sem hefst í apríl og stendur fram á haust eða þegar aðstæður til siglinga eru sem bestar. Freista margir þá gæfunnar og leita að betra lífi á meginlandi Evrópu. 

Flest skipin sem sigla til Evrópu setja stefnuna á Ítalíu. Svo mikil umferð er til landsins frá Afríku að ríkisstjórnin setti á laggirnar sérstakt átak til þess að bjarga farþegum skipanna, sem eru oft illa útbúin og yfirfull. Nefndist átakið Mare Nostrum og kostar það Ítali um 1,4 milljarða króna á mánuði. Hefur ríkisstjórnin því biðlað til Evrópusambandsins um aðstoð  í gegnum landamæraátak sambandsins, Frontex, en hingað til hefur sambandið verið sparsamt á aðstoðina. Svo fór að vegna kostnaðar varð að blása átakið af í nóvember á síðasta ári. 

Hollande boðaði til neyðarfundar

Læknar án landamæra hafa gagnrýnt Evrópuríki fyrir að veita ekki næga aðstoð, og í tilkynningu frá samtökunum segja þeir að verið sé að búa til fjöldagröf í Miðjarðarhafinu. 

Þær fréttir bárust þó í dag að Francois Hollande Frakklandsforseti hefur boðið innanríkis- og utanríkisráðherrum Evrópusambandsríkja á neyðarfund eftir atburði gærdagsins. Hollande er ómyrkur í máli þegar hann er spurður að því hvað þurfi að gera. „Við þurfum fleiri björgunarskip, björgunarþyrlur og meiri styrk í baráttunni gegn þeim sem smygla flóttamönnum.“

Slysið í gærkvöldi var afar dramatískt. Ítalska siglingastjórnin fékk neyðarboð frá skipi í Miðjarðarhafinu sem sagðist eiga í vandræðum. Siglingastjórnin sendi á svæðið portúgalskt flutningaskip. Samkvæmt Reuters eiga flóttamennirnir um borð að hafa hópast allir öðrum megin í bátnum um leið og flutningaskipið bar að, með þeim afleiðingum að skipinu hvolfdi. Þetta staðfestir Carlotta Sami, fulltrúi flóttamannahóps Sameinuðu þjóðanna (UNHCR).

Staðsetning slyssins var um 10 sjómílur norður af Líbýu og um 16 sjómílur suður af Lampedusa á Ítalíu. Fjöldi skipa var sendur á svæðið, aðallega ítölsk og maltnesk. Ekki er meira en vika síðan 400 flóttamenn týndu lífi þegar skipi með 550 flóttamönnum hvolfdi á svipuðum slóðum.

Sjá frétt mbl.is: Talið að 700 flóttamenn hafi farist

Mynd af björguninni þar sem sjá má björgunarþyrlu auk skips …
Mynd af björguninni þar sem sjá má björgunarþyrlu auk skips á svæðinu. AFP
Skip ítölsku landhelgisgæslunnar sem aðstoðaði við björgunina.
Skip ítölsku landhelgisgæslunnar sem aðstoðaði við björgunina. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert