Niðrandi ummæli dag eftir dag

Garå var ein af aðeins þremur blaðamönnum sem fengu viðtal …
Garå var ein af aðeins þremur blaðamönnum sem fengu viðtal við Zlatan Ibrahimovic þegar hann var keyptur til Barcelona. Reuters

Johanna Garå starfar hjá sænsku sjónvarpsstöðinni TV4 þar sem hún fjallar um spænsku úrvalsdeildina í knattspyrnu. Þegar hún var ráðin hafði hún margra ára reynslu frá fjölmiðlum í mörgum löndum en nú hefur hún ákveðið að hætta vegna þeirra ummæla sem bíða hennar á samfélagsmiðlum eftir hverja einustu útsendingu.

Garå segir í opinskáu viðtali við blaðið Resume frá því hvað það var sem fyllti mælinn. Hún var stödd í Barcelona þar sem hún var nýbúin að lýsa tapleik Barcelona. Hún ætlaði að skoða Twitter-aðganginn sinn til þess að svara spurningum áhugamanna þegar hún sá að það eina sem beið hennar voru hatursskilaboð og niðrandi ummæli. 

„Þarna var ég stödd í beinni útsendingu og fékk þau skilaboð að fólk hatar mig. Mér leið hræðilega en ég lét sem ekkert hefði gerst.“

Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem hún upplifði slík skilaboð en eftir þetta atvik hætti hún að geta skoðað samfélagsmiðla, af ótta við að lesa hin fjölmörgu hatursskilaboð. „Því miður þá fæ ég ekki að sjá skilaboð frá fólki sem vill hrósa mér því þeir sem senda mér neikvæð skilaboð drekkja hinum á netinu. Ég reyni að ímynda mér hvers konar fólk situr heima hjá sér og er svona biturt. Það eina sem þetta fólk vill er að öðrum líði illa,“ segir Gara.

Hún tilkynnti í dag í beinni útsendingu að hún muni klára samninginn sinn við sjónvarpsstöðina sem rennur út í maí en síðan snúa sér að öðru.

„Ég hef aldrei viljað vera opinber persóna og ég er ekki tilbúin til að taka á mig þær byrðar sem fylgja því. Ég elska frásagnarlistina og ég elska spænska boltann. Það eru sex ár frá því að ég hóf feril minn í sjónvarpi og á þeim tíma hafa samfélagsmiðlar rutt sér rúms. Þeir eru hræðilegir og á þeim eru engar hömlur,“ segir Garå

Hún segir að hatrið beinist að flestum þeim fréttamönnum sem eru á samfélagsmiðlum, en sérstaklega að henni þar sem hún sé kona í karllægu landslagi fótboltans. 

„Ég veit að margir sem vinna með knattspyrnu þurfa að þola mikinn skít á netinu og er það meðal annars vegna þess að hópíþróttirnar vekja heitar tilfinningar hjá fólki. En ég held að tónninn sé allt of slæmur, sérstaklega gagnvart konum á Twitter. Þess vegna vil ég ekki lesa þessi skilaboð lengur. Það er ekki þess virði,“ segir Garå.

Hún er afar reynd þegar kemur að knattspyrnu og sér í lagi spænskri. Árið 1997 flutti hún til Spánar og kynntist knattspyrnunni og þar vaknaði áhuginn. Þegar hún lærði svo blaðamennsku í London, fjallaði lokaverkefni hennar um nágrannaslag Sevilla og Betis í spænska boltanum. Hún hefur síðan þá unnið fyrir spænska, enska og sænska fjölmiðla og hefur getið sér gott orð sem vandaður blaðamaður. Sem dæmi um það var hún ein af aðeins þremur blaðamönnum sem fengu viðtal við Zlatan Ibrahimovic þegar hann var keyptur til Barcelona.

Sjá ítarlegt viðtal Resumé við Garå .

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert