Reiknað með nýrri ríkisstjórn

Þingkosningar fara fram í Finnlandi í dag og hafa kjörstaðir verið opnaðir. Skoðanakannanir benda til þess að ríkisstjórnin falli en kosningabaráttan hefur einkum snúist um það með hvaða hætti megi koma landinu upp úr efnahagslægð undanfarinna þriggja ára.

Fram kemur í frétt AFP að skoðanakannanir bendi til þess að Miðflokkurinn verði sigurvegari kosninganna undir forystu Juha Sipila sem er 53 ára gamall milljarðamæringur og nýliði í stjórnmálum. Hann hefur lagt mikla áherslu á reynslu sína úr viðskiptum og heitið því að koma efnahagslífinu aftur í gang eftir þrjú ár af stöðnun, niðurskurði og misheppnuðum umbótum. Hefur hann meðal annars heitið því að skapa 200 þúsund ný störf í einkageiranum á næstu 10 árum en atvinnuleysi í Finnlandi er nú 9,2% sem er mesta atvinnuleysi frá árinu 2003.

Stjórnarmyndurnarviðræður gætu orðið erfiðar

„Landið okkar á betra skilið en þetta,“ skrifaði Sipila á bloggsíðuna sína í gær. „Endurvekja verður traust í stjórnmálunum.“ Sipila var fyrst kjörinn á þing árið 2011 og verð leiðtogi Miðflokksins árið eftir. Þá nær óþekktur meðal finnskra kjósenda. Flokkurinn hefur verið í stjórnarandstöðu síðan 2011 en mælist nú með 24% fylgi.

Gangi spár eftir í dag verður Miðflokkurinn stærsti flokkur landsins og ljóst að Sipila bíður það verkefni að finna mögulega samstarfsflokka í ríkisstjórn. Haft er eftir Juhana Aunesluoma, stjórnmálaprófessor við Helsinki-háskóla, að stjórnarmyndunarviðræður gætu gengið illa fyrir sig í ljósi efnahagsástandsins í Finnlandi. 

Þrír flokkar berjast um að verðanæst stærsti flokkur landsins með fylgi á milli 14 og 17% í síðustu könnunum. Þjóðarflokkur Alexanders Stubb forsætisráðherra, Jafnaðarmannaflokkurinn og hinn populíski Finnaflokkur sem áður kallaði sig Sannir Finnar. Sipila hefur ekkert gefið upp um það með hvaða flokkum hann vilji starfa að lokum kosningum.

Fylgst náið með kosningunum í Brussel

Fylgst er náið með kosningunum hjá Evrópusambandinu samkvæmt frétt AFP en efasemdir um sambandið eru áberandi innan Miðflokksins. Þá er Finnaflokkurinn mjög andvígur afskiptum ráðamanna í Brussel af finnskum innanríkismálum. „Evrusvæðið er eins og sakir standa hrein hörmung,“ er haft eftir Timo Soini, leiðtoga Finnaflokksins.

Stubb segist í samtali við AFP enn gera sér vonir um að sigra í kosningunum en hann tók við sem forsætisráðherra á síðasta ári þegar forveri hans, Jyrki Katainen, settist í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Skoðanakannanir benda til þess að flokkur hans sé líklegastur til þess að verða næststærsti flokkur landsins með 16,8% fylgi.

„Ég geri mér enn vonir um gullverðlaunin,“ er haft eftir honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert