Þurfa að vísa konum í neyð frá

AFP

Kvennaathvörf í Svíþjóð eru yfirfull og hefur þurft að vísa frá að meðaltali fimm konum á dag í fyrra vegna þess að ekki var hægt að taka við konum í neyð. 

Á sama tíma hefur konum fjölgað sem leita sér hjálpar eftir að upplýst hefur verið um að þær hafi verið fluttar inn sem brúðir og ofbeldi tengt sæmd í fjölskyldum hefur aukist. 

Á síðasta ári fjölgaði konum sem leituðu hjálpar um 38% frá fyrra ári, að því er segir í nýrri skýrslu frá Samtökum um kvennaathvarf í Svíþjóð (Roks).

Plássleysi veldur því að kvennaathvörf neyðast til þess að synja konum, að meðaltali fimm á dag, um vistun.

Karin Svensson, sem stýrir Roks, segir að þetta sé skelfilegt fyrir konurnar sem kannski loksins stíga skrefið og leita sér hjálpar. Þetta getur þýtt að ofbeldið gagnvart þeim magnast til muna. 

Í fyrra fjölgaði gríðarlega konum sem leituðu sér aðstoðar vegna ofbeldis vegna sæmdar fjölskyldu  sem og konum sem höfðu komið til Svíþjóðar í gegnum innflutning á eiginkonum.

Alls leituðu 18.803 konur og stúlkur eftir aðstoð í þeim 110 kvennaathvörfum sem Roks rekur í Svíþjóð í fyrra. Árið 2013 voru þær 17.144 talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert