Skipstjórinn handtekinn vegna mansals

Fjölmiðlar bíða komu eftirlifendanna til Sikileyjar.
Fjölmiðlar bíða komu eftirlifendanna til Sikileyjar. AFP

Skipstjóri og áhafnarmeðlimur á bátnum sem sökk undan ströndum Líbíu á sunnudag, með þeim afleiðingum að um 800 manns létust, hafa verið handteknir. Þeir voru meðal 27 eftirlifenda sem komu til Sikileyjar seint í gær.

Mönnunum tveimur er haldið vegna gruns um mansals. Að því er fram kemur hjá BBC er skipstjórinn frá Túnis en stýrimaðurinn frá Sýrlandi. Morðrannsókn hefur verið hafin vegna slyssins.

Að sögn fulltrúa Sameinuðu þjóðanna voru fleiri en 800 um borð í bátnum þegar hann sökk, þeirra á meðal börn á aldrinum 10-12 ára. Um 150 voru frá Erítreu, en meðal farþega voru einnig einstaklingar frá Sómalíu og Sýrlandi.

Samkvæmt ítölskum yfirvöldum var fjöldi fólks læstur neðan þilja þegar báturinn fór á hliðina, en talið er að það hafi gerst þegar portúgalskt flutningaskip gerði tilraun til björgunar. Aðeins 28 lifðu slysið.

„Þau eru í algjöru áfalli, þau síendurtaka sig, segja að þau séu einu eftirlifendurnir,“ sagði Francesco Rocca, forseti ítalska Rauða krossins, í samtali við BBC. „Sum þeirra vilja tjá sig, aðrir vilja þegja. Þú getur ímyndað þér álagið sem þau eru undir. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé fólk í svona miklu áfalli. Það sést í augum þeirra.“

Utanríkisstjóri Evrópusambandsins, Federica Mogherini, segir að þær aðgerðir sem samþykktar voru í gær endurspegluðu „sterk viðbrögð ESB við harmleikjunum“ og mikinn pólitískan vilja.

Þær fela meðal annars í sér aukin fjárframlög til Frontex, sem hefur umsjón með björgunaráætluninni Triton á Miðjarðarhafinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert