Flugvélar snéru við vegna skjálfta

Nepalar tóku höndum saman í kjölfar jarðskjálftans sem reið yfir …
Nepalar tóku höndum saman í kjölfar jarðskjálftans sem reið yfir landið í gær. PRAKASH MATHEMA

Alþjóðaflugvelli Nepal var lokað í skamma stund í morgun eftir að harður eftirskjálfti reið yfir í landinu í morgun. Lokun flugvallarins þvingaði flugvélar sem voru í loftinu á leið til flugvallarins til þess að snúa til baka samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum í landinu og erlendum fjölmiðlum.

Indverska lággjaldaflugfélagið Spicejet hefur tilkynnt um að flugvél félagsins hafi verið snúið aftur til Nýju-Delí eftir að flugumferðarturninn á flugvellinum í Kathmandu var rýmdur. Þá snéru tvær flugvélar flugfélagsins Air India við í háaloftunum en í 135 farþegar voru í annarri vélinni og 45 í hinni.

Erlendir fjölmiðlar hafa einnig greint frá því að flugvél flugfélagsins Dragonair frá Hong Kong hafi hringsólað í háaloftunum í um 90 mínútur áður en hún lenti loksins.

Fjöldi látinna er kominn yfir 2 þúsund

Birendra Prasad Shrestha, framkvæmdastjóri Tribhuvan alþjóðaflugvallarins, sagði í samtali við AFP-fréttaveituna að búið sé að opna flugbrautina eftir að henni var lokað í klukkustund.

„Flugvöllurinn er nú opinn. Við urðum að loka flugbrautinni í klukkustund vegna eftirskjálftans en nú er búið að opna á nýjan leik," sagði Shrestha við AFP.

Lokun flugvallarins er lýsandi fyrir það ástand sem nú ríkir í Nepal. Þarlend stjórnvöld standa frammi fyrir erfiðu verkefni þar sem nú er reynt að bjarga og aðstoða þúsundir manna í kjölfar mikillar eyðileggingar vegna jarðskjálftans sem reið yfir landið í gær.

Fjöldi látinna er kominn yfir 2 þúsund og eyðilögðust heilu húsin, vegir rifnuðu, rafmagnslínur slitnuðu, hluti fjarskiptakerfis landsins liggur niðri og aðrir innviðir samfélagsins eru ónýtir eftir jarðskjálfta gærdagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert