Leita að ástvinum á Google

Margir eru heimilislausir eftir skjálftann mikla.
Margir eru heimilislausir eftir skjálftann mikla. AFP

Örvæntingarfullir vinir og ættingjar íbúa og ferðamanna í Nepal reyna nú að hafa uppi á þeim í gegnum samfélagsmiðla og leitarforrit sem Google hefur virkjað vegna skjálftans. Fleiri en 2.200 eru látnir og mörg þúsund manns eru slasaðir eftir hörmungar gærdagsins.

Í kjölfar skjálftans virkjaði Google leitarforrit sem hannað var vegna skjálftans á Haítí. Forritið er einfalt og býður upp á tvo valmöguleika; „Ég er að leita að einhverjum“ og „Ég hef upplýsingar um einhvern.“ Hægt er að hlaða inn myndum og prófílum af samfélagsmiðlum sem og upplýsingar um útlit fólksins.

Á síðunni er meðal annars að finna nafn Abdulla Dahab. Hann býr í London og hefur verið á bakpokaferðalagi um Nepal að undanförnu. Dahab, sem er 20 ára, hafði síðast samband við fjölskyldu sína á föstudag til að segja þeim að hann ætlaði að ganga upp í 4.600 metra hæð á Everest.

Systir hans segir að hann hafi ekki haft samband síðan jarðskjálftinn reið yfir og fjölskyldunni hafi ekki tekist að fá frekari upplýsingar um hann.

Einnig er leitað að þriggja manna fjölskyldu frá Ástralíu, þar á meðal lítilli stúlkur. Fjölskyldan kom til Katmandú á fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert