„Komið ykkur út...“

Snjóflóðið banvæna
Snjóflóðið banvæna AFP

Ótrúlegar sögur af þeim sem lifðu af jarðskjálftann í Nepal og snjóflóðin á Everest eru sagðar í fjölmiðlum um allan heim þessa dagana. Þar á meðal bresks pars sem er í brúðkaupsferðalagi á Everest og lenti í snjóflóði.

Sögu Alex Schneider og Sam Chappatte, sem eru bæði 28 ára gömul, er hægt að lesa á vef Telegraph. Þau gengu í hjónaband nýverið og voru í draumaferðalagi sínu, á Everest.

Þau voru í tjaldi sínu þegar jörðin byrjaði að skjálfa og fararstjórinn öskraði á hópinn: Komið ykkur út úr fjárans tjöldunum og grípið ísaxir ykkar.

Hjónin, sem búa í Lundúnum, lýsa því hvernig þau hafi séð snjóflóðið koma á móti þeim og þau hafi tekist á loft í vindhviðu. Þeim tókst að komast í skjól og voru ísaxirnar notaðar til þess að búa til loftgöt.

Doktor frá Northampton og vinur björguðust naumlega þegar þorpið sem þau voru í jafnaðist við jörðu í jarðskjálftanum.

Unglingur frá Chester, sem er að reyna í annað sinn við Everest, horfði á vini sína sópast burt með snjóflóðinu þegar snjóflóð reið yfir tjaldbúðir hans.

Schneider og Cappatte lýsa því á bloggi sínu hversu hrædd þau hafi verið en þau voru í búðum eitt þegar snjóflóðið féll. „Við skjögruðum út og sáum snjóflóðið stefna beint á okkur. Vindhviða feykti okkur um koll en okkur tókst að standa á fætur og hlaupa í skjól á bakvið tjöld þar sem við notuðum ísaxirnar sem ankeri,“ skrifa hjónin en þau hafa verið par síðan þau voru fimmtán ára gömul.

Þau segja að fararstjórinn hafi staðið sig frábærlega og veitt öllum mikinn stuðning. Þegar þau náðu sambandi við fjölskyldu sína í Bretlandi sögðust þau enn vera í búðunum en sá hluti grunnbúðanna sem þau dvöldu í flattist út í flóðinu.

Missti alla fjölskylduna

Hayley Saul, 32 ára, doktor í  fornleifafræði á Himalaja-svæðinu, hafði farið frá þorpinu Langtang í útjaðri Katmandú einungis tveimur tímum áður en þorpið þurrkaðist út í jarðskjálftanum á laugardag. Hún hafði farið í fjallgöngu ásamt vini og fararstjóra og það tók þau fimm eða sex klukkustundir aukalega að komast í næsta þorp vegna skaðans sem jarðskjálftinn olli. Fararstjórinn fékk síðan þær fregnir að öll fjölskylda hans hefði farist í jarðskjálftanum. 

James Grieve, 52 ára frá Kinross, sem var þátttakandi í Help for Heroes-leiðangrinum, sem safnar fé til styrktar breskum hermönnum sem hafa særst í starfi, segir að 12 úr hópnum séu látnir og 50 slasaðir. Þeir eru innilokaðir en nú er byrjað að flytja slasaða niður í byggð.

Hann náði að hringja í konu sína Shirley McGhie og láta hana vita að hann væri heill á húfi. Hún segir í samtali við Telegraph að þeir hafi verið í tjöldum sínum þegar snjóflóðið reið yfir. 

Hér er hægt að lesa fjölmargar frásagnir af þeim sem lifðu af

Frá björgunarleiðangri á Everest
Frá björgunarleiðangri á Everest AFP
Úr grunnbúðum Everest
Úr grunnbúðum Everest AFP
AFP
Frá Everest
Frá Everest AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert