Trúin varð að þráhyggju

Ákæruvaldið í málinu gegn yngri Tsarnaev-bróðurnum hefur birt þessa mynd …
Ákæruvaldið í málinu gegn yngri Tsarnaev-bróðurnum hefur birt þessa mynd af honum og segir hana til marks um skeytingarleysi morðingjans. AFP

Tamerlan Tsarnaev, annar bræðranna tveggja sem stóðu að sprengjuárásinni í Boston-maraþoninu 2013, var með íslam og pólitík á heilanum. Þetta sagði tengdamóðir hans, Judith Russell, við réttarhöld í dag. Dóttir hennar Katherine tók upp íslamstrú eftir að hún giftist Tsarnaev, en enginn ættingja hennar var viðstaddur brúðakaupið.

Það voru verjendur Dzhokhar, yngri bróður Tamerlan, sem kölluðu Russell til vitnis, en þeir freista þess nú að forða honum frá dauðarefsingunni. Tamerlan lést í eftirför lögreglu fjórum dögum eftir árásina. Verjendur yngri Tsarnaev-bróðursins hafa haldið því fram að hann hafi verið undir áhrifum þess eldri.

Að sögn Russell pössuðu Tamerlan og Katherine ekki saman; hann var atvinnulaus, hrokafullur og sýndi aðeins einu brennandi áhuga: hnefaleikum. Katherine varð ólétt, hætti í námi og hóf að hylja líkama sinn og andlit.

„Hann varð trúaðri með tímanum,“ sagði Judith Russell. Tamerlan lét sér vaxa skegg og snéri aftur eftir 6 mánaða dvöl í Rússlandi með sítt hár á höfði og í andliti. „Hann vildi stöðugt tala um hversu góð íslamstrúin væri. Hún varð að þráhyggju,“ sagði hún.

Tamerlan varð tíðrætt um pólitík og skaðvænleg áhrif Bandaríkjanna á múslimaríki, að sögn Russell. Þá var hjónabandið dóttur hennar erfitt, en að sögn Russell hefur hún unnið að því síðustu tvö ár að koma lífi sínu aftur í réttar skorður.

Vinkona Katherine, fyrrum eiginkonu Tamerlan Tsarnaev, yfirgefur dómshúsið í Boston …
Vinkona Katherine, fyrrum eiginkonu Tamerlan Tsarnaev, yfirgefur dómshúsið í Boston í dag eftir að hafa borið vitni. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert