Af hverju heitir hún Karlotta?

Karlotta litla á sér fjölmargar nöfnur.
Karlotta litla á sér fjölmargar nöfnur. AFP

Hertoginn og hertogaynjan af Cambridge nefndu í dag dóttur sína sem fæddist á laugardaginn. Samkvæmt tilkynningu frá Kensington höll heitir prinsessan Karlotta Elísabet Díana, eða Charlotte Elizabeth Diana. Karlotta litla er fjórða í röðinni að krúnunni og verður hún kölluð Karlotta prinsessa af Cambridge.

Hún fæddist á laugardaginn á St. Mary sjúkrahúsinu í Lundúnum. Hún var 3,7 kíló þegar hún fæddist eða rétt um fimmtán merkur. Elísabet Bretlandsdrottning og aðrir meðlimir konungsfjölskyldunnar fengu að heyra af nafninu áður en það var tilkynnt opinberlega.

Kvenkyns útgáfa af nafninu Karl

Síðustu vikurnar fyrir fæðingu stúlkunnar fór að hitna í breskum veðbönkum vegna nafnsins. Flestir veðjuðu á nafnið Alice en Charlotte var í öðru sæti. Eftir að stúlkan fæddist á laugardaginn bættust nöfnin Rose og Grace í toppbaráttuna. 

Breskir fjölmiðlar hafa í dag velt fyrir sér mögulegum ástæðum fyrir nafngiftinni og eins og við er að búast eru þær fjölmargar.

Í grein BBC kemur fram að Karlotta er kvenkyns útgáfan af nafninu Karl sem er auðvitað nafn afa barnsins, Karls Bretaprins. Þar að auki hétu tveir fyrrum konungar Englands Karl. Er jafnframt löng hefð fyrir nafninu Karlotta í konungsfjölskyldunni og varð það til að mynda vinsælt nafn á átjándu öld þegar að drottning Georgs þriðja bar nafnið.

Árið 1761 keypti konungurinn Buckingham House fyrir Karlottu drottningu. Það varð síðar Buckingham höll og er það eins og flestir vita höll Elísabetar drottningar.

En það er þó vel hægt að tengja nafnið Karlotta við aðra ættingja Hertogans og Hertogaynjunnar. Karlotta, eða Charlotte, er til að mynda miðnafn systur Katrínar, Pippu Middleton. Prinsessan á þar að auki aðra frænku sem heitir Charlotte en það er Charlotte Spencer, yngsta dóttir Charles Spencer jarl, bróðir Díönu prinessu.

 „Fullkomin nöfn, mín tveggja ára gamla dóttir, Charlotte Diana, verður himinlifandi með nöfn frænku sinnar,“ skrifaði jarlinn á Twitter í morgun.

Í frétt BBC kemur fram að Charlotte er í 21. sæti yfir vinsælustu stúlkunöfn í Englandi og Wales. 2,242 börn voru nefnd Charlotte árið 2013. Nafnið Elizabeth í 39. sæti en nafnið Díana nær ekki á topp 100 listann. 

Of mikil byrði að heita Díana sem fyrsta nafn

Að sögn Peter Hunt, fréttaritara BBC þegar það kemur að bresku konungsfjölskyldunni var það óhjákvæmilegt að Vilhjálmur myndi heiðra móður sína með því að nefna stúlkuna Díönu. Þó var það fyrirsjáanlegt að það yrði aldrei fyrsta nafn stúlkunnar. Það væri einfaldlega of mikil byrði fyrir prinsessuna að mati Hunt. Að mati Hunt var það einnig nokkuð fyrirsjáanlegt að stúlkan yrði skírð í höfuðið á ömmu sinni, Elísabetu Englandsdrottningu. Vilhjálmur hefur sagt frá því hvernig samband hans við ömmu sína hafi orðið sterkara síðustu árin

Charlotte prinsessa fæddist á níunda tímanum á laugardaginn. Katrín og Vilhjálmur fóru af sjúkrahúsinu seinna um daginn og sýndu fjölmiðlum og almenningi sem hafði hópast fyrir utan sjúkrahúsið dótturina. Í yfirlýsingu frá hjónunum lýstu þau yfir þakklæti fyrir allar þær hamingjuóskir sem þeim höfðu borist og þökkuðu starfsfólki sjúkrahússins.

Karl Bretaprins og Kamilla hertogaynja voru í rúmlega klukkustund með nýja barnabarninu á laugardaginn. Einnig komu í heimsókn foreldrar Katrínar, Michael og Carole Middleton og systir hennar, Pippa.  Harry prins, sem rétt svo missti af fæðingu frænku sinnar þar sem hann er í Ástralíu að klára herþjálfun sagði í samtali við fjölmiðla að prinsessan væri „gullfalleg“ og að hann gæti ekki beðið eftir því að hitta hana.

Katrín og Vilhjálmur með prinsessuna.
Katrín og Vilhjálmur með prinsessuna. Skjáskot af vef BBC
Aðdáendur konungsfjölskyldunnar, Terry Hutt og Margaret Tyler klæddu sig upp …
Aðdáendur konungsfjölskyldunnar, Terry Hutt og Margaret Tyler klæddu sig upp er þau biðu fregna af fæðingu barnsins á laugardaginn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert