„Ég mun deyja þökk sé þér“

Mila Dago.
Mila Dago.

Bandarísk kona sem ákærð hefur verið fyrir manndráp af gáleysi eftir að hún keyrði undir áhrifum og olli banaslysi í Miami, sendi kærasta sínum skilaboðin „Keyrandi full vúhú“ aðeins nokkrum mínútum fyrir slysið.

Á fimmtudag birtu saksóknarar ný sönnunargögn í málinu, og voru skilaboðin sem hún sendi úr síma sínum á meðal þeirra. Hafði hún einnig sent kærastanum önnur skilaboð þar sem stóð: „Ég mun deyja þökk sé þér“.

Slysið átti sér stað þann 14. ágúst 2013. Mila Dago, þá 22 ára, var við stýrið á bílaleigubíl þegar hún keyrði yfir á rauðu ljósi og skall inn í hliðina á flutningabíl. Dago og bílstjóri flutningabílsins lifðu af, en vinkona Dago sem var með henni í bílnum lést. Það var hin 22 ára gamla Irina Peinoso.

Saksóknarar segja Dago hafa verið að ganga í gegnum erfið sambandsslit frá kærasta sínum þegar slysið varð, og því hafi hún sent honum fjölda hatursfullra skilaboða þetta kvöldið. Þremur mínútum eftir að hafa sent síðasta skilaboðið varð slysið.

Áfengismagnið í blóði Dago var rúmlega tvöfalt meira en löglegt er og var hún því ákærð fyrir manndráp af gáleysi, of hraðan akst­ur, und­ir áhrif­um og fleiri um­ferðarlaga­brot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert