Flokkarnir hnífjafnir í skoðanakönnunum

<span>„Í Bretlandi eru svokölluð einmenningskjördæmi þannig að öllum Bretlandseyjum er skipt upp í 650 einmenningskjördæmi. Síðan nær bara einn frambjóðandi í hverju kjördæmi kjöri og er það sé sem fær flest atkvæði. Ef einn fær 25% atkvæða, annar 24%, þriðji 23% og aðrir minna þá kemst einungis sá sem fékk 25% inn á þing. Sá sem fær flest atkvæði fer inn á þing og hin atkvæðin detta niður dauð,</span><span>“ sagði Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is, þar sem hann var beðinn um að útskýra kosningakerfið í Bretlandi og spá í spilin.</span>

Mikil spenna ríkir í Bretlandi en á morgun gengur breska þjóðin að kjörborðinu og kýs nýtt þing. Skoðanakannanir undanfarna daga benda til þess að Íhaldsflokkurinn fái 34% atkvæða og Verkamannaflokkurinn einnig. Sjálfstæðisflokkur Bretlands (UKIP) fengi 13% atkvæða og Frjálslyndir demókratar 10%. Græningjar myndu fá 5% atkvæða samkvæmt könnunum.

Prósentutala atkvæða og fjöldi þingsæta ekki sá sami

Þetta einmenningskjördæma kerfi var upphaflega sett til að tryggja stöðuleika þannig að einn flokkur gæti fengið meirihluta á þingi. Talsverð óánægja hefur ríkt en kerfið þykir frekar ósanngjarnt, sérstaklega gagnvart litlum flokkum. „Það hefur bara nokkrum sinnum gerst á síðustu áratugum að einn flokkur hafi ekki náð meirihluta. Hins vegar veit maður ekkert hver þróunin verður en það lítur út fyrir það núna að þetta verði aðrar kosningarnar í röð þar sem enginn flokkur fær hreinan meirihluta.“ Í eyrum flestra hljómar hreinn meirihluti sem meira en 50% atkvæða en það er ekki raunin. „Flokkar hafa verið að fá hreinan meirihluta með vel innan við 40% atkvæða vegna þess að þeir hafa fengið flest atkvæði í meirihluta einmenningskjördæmanna.“

<br/><br/>

Kjördæmaskipan og vægi atkvæða getur flækst fyrir fólki og heildarprósentutala atkvæða skiptir ekki mestu máli. „Núna benda kannanir til þess að Frjálslyndi flokkurinn fái um 10% fylgi en þeim er spáð tæplega 20 þingmönnum. Það er vegna þess að þeir eru sterkir í tilteknum kjördæmum og fá flest atkvæði í þeim. Hins vegar er Breska sjálfstæðisflokknum spáð 13% fylgi en ekki nema einum þingmanni vegna þess að atkvæði flokksins dreifast um allt landið. Allt fylgi Skoska þjóðarflokksins er í Skotlandi og þar er flokknum spáð 55 af 59 þingsætum. Ef það gengur eftir verða það stærstu tíðindi kosninganna.“

Enginn flokkur með hreinan meirihluta

Kosningabaráttan hefur verið spennandi og eru tveir stærstu flokkarnir, Verkamannaflokkurinn og Íhaldsflokkurinn, hnífjafnir í skoðanakönnunum. „Það lítur út fyrir að hvorugur þeirra nái hreinum meirihluta, nái þessum 326 þingsætum sem þarf til þess. Þá erum við komin í þá stöðu að það þarf annað hvort að mynda minnihlutastjórn eða aðra samsteypustjórn. Verði niðurstaðan svipuð og kannanir benda til er Verkamannaflokkurinn í betri stöðu heldur en Íhaldsflokkurinn af því að hann á möguleika á því að mynda ríkisstjórn með fleiri og sterkari flokkum en Íhaldsflokkurinn.“

<br/><br/>

Baldur bendir í þessu samhengi á að Skoski þjóðarflokkurinn verði líklega þriðji stærsti flokkurinn á þingi og leiðtogi hans hafi líst því yfir að flokkurinn muni ekki starfa með eða styðja ríkisstjórn Íhaldsflokksins. „Það er mjög líklegt að það verði samvinna á milli Verkamannaflokksins og Skoska þjóðarflokksins. Hins vegar er ekki ljóst hvort þessir flokkar nái nógu mörgum þingsætum til að ná meirihluta og heldur ekki hvort þeir myndi samsteypustjórn. Mér finnst líklega að Verkamannaflokkurinn myndi minnihlutastjórn, studda af Skoska þjóðarflokknum en þeir gætu þurft fleiri flokka með sér.“

<br/><br/>

Margar stöður geta komið upp eftir kosningar og ein þeirra er sú að Íhaldsflokkurinn verði stærstur á þingi en hafi ekki meirihluta. „Íhaldsflokkurinn gæti orðið stærstur á þingi án meirihluta og samanlagður þingmannahluti Verkamannaflokksins og Skoska þjóðarflokksins nái ekki hreinum meirihluta á þingi. Við þessar aðstæður gæti David Cameron (forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins) látið vera að segja af sér og ákveðið að reyna að sitja áfram með óformlegu samþykki þingsins. Til að hann færi frá yrði að koma vantrausttillaga á ríkisstjórnina. Menn hafa velt þessari stöðu upp í Bretlandi í aðdraganda kosninganna. Cameron gæti þá setið svo lengi sem þingið fellir ekki ríkisstjórnina.“ Baldur segir að þetta gerist varla ef Verkamannaflokkurinn og Skoskir þjóðernissinnar ná þingmeirihluta, þá muni þeir starfa saman.

Áhugaverð staða í Skotlandi

Staðan í Skotlandi er sérstaklega áhugaverð. Eins og kemur fram hér að ofan er Skoska þjóðarflokknum spáð 55 af 59 þingsætum Skota sem er athyglisvert í kjölfar þess að Skotar höfnuðu sjálfstæði síðasta haust. „Það hefði enginn trúað því þegar kosið var um sjálfstæði Skota og skoskir þjóðernissinnar töpuðu að þeir myndu hirða nær öll þingsætin í breska þinginu nokkrum mánuðum síðar! Skotar hafa kosið Verkamannaflokkinn upp til hópa undanfarin 30 ár. Í sjálfstæðisbaráttunni tóku Verkamannaflokkurinn, Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn höndum saman til að hafna sjálfstæði Skotlands.“

<br/><br/>

Bendir Baldur á að þó margir kjósendur Verkamannaflokksins hafi ekki viljað sjálfstæði hafi þessi samvinna flokksins við íhaldið farið í taugarnar á þeim. „Mörgum kjósendum í Skotlandi finnst líka eins og ríkisstjórnin í London hafi ekki staðið við það sem átti að koma í staðin ef Skotar samþykktu ekki sjálfstæði. Ég held einfaldlega að margir skoskir kjósendur treysti Skoska þjóðarflokknum best til að halda utan um hagsmuni þeirra í viðræðum við bresku ríkisstjórnina um aukna sjálfsstjórn.“ 

Spennan ekki síðri þegar úrslitin liggja fyrir

Baldur býst við tvísýnum kosningum en er ekki síður spenntur fyrir eftirmálum kosninganna; hvaða flokkar myndi stjórn. „Mesta spennan að mínu mati er hvort Verkamannaflokkurinn og Skoski þjóðarflokkurinn fái nógu marga þingmenn til að ná meirihluta á þingi. Ef það gerist ekki, hvað gera þeir þá? Leita þeir þá til velskra þjóðernissinna eða vinstri flokka á N-Írlandi? Það er líklegast,“ sagði Baldur.

Frá vinstri til hægri: Nick Clegg, formaður Frjálslynda flokksins, Ed …
Frá vinstri til hægri: Nick Clegg, formaður Frjálslynda flokksins, Ed Miliband, formaður Verkamannaflokksins og David Cameron, forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins AFP
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert