Með blæti fyrir tannlausum konum

Nýsjálendingur með blæti fyrir tannlausum konum var í dag fundinn sekur um að líkamsárás en hann hafði dregið tennur úr konu á meðan kynmökum þeirra stóð.

Réttarhöldin yfir Philip Lyle Hansen hafa staðið yfir í sex daga í Wellington og lýsti saksóknari þeim sem fáránlegum en við réttarhöldin hefur ástríðum og kynhegðun Hansens verið lýst í þaula en hann er með þráhyggju fyrir tannlækningum.

Fjórar konur báru vitni gegn honum en Hansen lýsti yfir sakleysi í tíu ákæruliðum gegn honum. Um var að ræða árásir sem hann var sakaður um á tímabilinu 1988 til ársins 2011.

Hansen var fundinn sekur um fimm árásir og eina ósæmilega árás en hann var sýknaður af fjórum ákærum, þar af nauðgunarákæru.

Vitni báru að Hansen, sem er 56 ára gamall, væri drottnandi og afar stjórnsamur einstaklingur sem girntist tannlausar konur.

Í tölvu hans sást að hann hafði í yfir 600 skipti leitað að atriðum tengdum tannlækningum og tannúrdrætti. Þar á meðal hafði hann leitað að „fat gummy ladies.“

Ein kona lýsti því hvernig hann hafi skyndilega þrifið upp töng og reynt að draga úr henni tennurnar þegar þau voru í ástarleikjum. Í annað skipti hafði hún vaknað upp við að hann hélt hana haustaki og var að reyna að rífa úr henni tennurnar.

Önnur kona bar vitni um að hún hafi farið í aftursæti bifreiðar Hansens þar sem þau ætluðu að hafa mök þegar hann dró upp töng og reif úr henni sex tennur án þess að deyfa hana.

Þyngd refsingarinnar verður kveðin upp 19. júní en það tók kviðdóminn aðeins fimm klukkustundir að ná sameiginlegri niðurstöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert