Ákærðir fyrir stuðning við Ríki íslams

AFP

Tveir karlmenn búsettir í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum voru í dag ákærðir fyrir stuðning við Ríki íslams, samtaka íslamista. Var annar þeirra sakaður um að hafa reynt að ferðast til Mið-Austurlanda til að ganga til liðs við íslamistana.

Karlmennirnir, Muhanad Badawl og Nader Elhuzayel, eru 24 ára gamlir og búa í borginni Anaheim. Þeir voru ákærðir eftir að rannsakendur höfðu rakið slóð þeirra á samfélagsmiðlum á internetinu en þar höfðu þeir lýst yfir stuðningi sínum við Ríki íslams.

Elhuzayel sýndi til að mynda íslamistunum sem reyndu að gera skotárás á fund í Texas í seinasta mánuði stuðning sinn. Árásin mistókst og felldi lögregluna báða mennina. Fundurinn var á vegum félags sem efnt hafði til samkeppni um bestu skopmyndina af Múhameð spámanni.

Hrósaði Elhuzayel öðrum árásarmanninum, Elton Simpson, og sagði hann vera píslarvott.

Þá sýndu málsskjöl að Badawi hafði leyft Elhuzayel að nota kreditkortið sitt svo hann gæti keypt sér flugmiða, aðeins aðra leið, til Tel Aviv og þaðan til Sýrlands. Elhuzayel átti að fara þann 21. maí en var handtekinn á flugvellinum í Los Angeles, að því er segir í frétt AFP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert