Hlutleysi Erdogan dregið í efa

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, vígði í dag nýjan flugvöll á manngerðri eyju í Svartahafi. Um er að ræða síðasta verkefnið í röð umfangsmikilla innviðaframkvæmda í aðdraganda þingkosninganna 7. júní nk.

Erdogan, sem má lögum samkvæmt ekki taka afstöðu til framboða í kosningunum, hefur verið sakaður um að hygla Réttlætis- og þróunarflokknum (AKP), sem hann stofnaði 2001.

„Þegar við komumst til valda (árið 2002) voru 26 flugvellir í landinu. Þeir eru nú 54. Fólk vissi ekki einu sinni hvað háhraðalest var,“ sagði Erdogan við vígsluna, sem var sjónvarpað. Með honum var forsætisráðherrann Ahmet Davutoglu, sem er jafnframt leiðtogi AKP.

Samkvæmt hinni opinberu fréttastofu Anatolia er flugvöllurinn sá fyrsti sinnar tegundar sem byggður er á eyju utan Asíu. Eyjan var mynduð með 35 milljón tonnum af grjóti.

Flugvöllurinn var upphaflega nefndur Or-Gi, eftir héruðunum Ordu og Giresun, sem hann þjónar. Hann var hins vegar endurnefndur Ordu-Giresun flugvöllur þegar það rann upp fyrir yfirvöldum að nafnið hljómaði óþægilega líkt og enska orðið fyrir kynsvall, „orgy“.

Erdogan hefur verið iðinn í aðdraganda kosninganna, en í gær vígði hann þriðju stærstu hengibrú Tyrklands, sem liggur yfir stíflu í fljótinu Efrat. Næstkomandi þriðjudag mun hann síðan vígja annan flugföll í austurhluta landsins, nærri landamærunum að Íran og Írak.

Í tilraun til að stela sviðsljósinu frá Erdogan tilkynnti stjórnarandstöðuflokkurinn CHP að hann hygðist reisa nýja stórborg í miðju landinu.

Stjórnmálaskýrendur segja að vilji Erdogan standi til þess að AKP sópi til sín tveimur þriðjuhlutum þingmanna, sem myndi gera flokknum kleift að breyta stjórnarskránni til að treysta ítök Erdogan sem æðsta leiðtoga landsins.

Forsetinn hefur hafnað ásökunum um hlutdrægni og segist aðeins vilhallur þjóðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert