Segist bera hluta af ábyrgðinni

Ed Balls, fyrrum þingmaður og skuggaráðherra fjármála fyrir Verkamannaflokkinn.
Ed Balls, fyrrum þingmaður og skuggaráðherra fjármála fyrir Verkamannaflokkinn.

Ed Balls, fyrrum skuggaráðherra fjármála og þingmaður breska Verkamannaflokksins, viðurkennir í samtali við BBC að hann sjálfur sé ein af ástæðunum fyrir hina slæmu útreið sem flokkurinn fékk í nýafstöðnum þingkosningum. 

Hann tapaði sjálfur sínu þingsæti í kosningunum sem enduðu með því að Íhaldsflokkurinn hlaut hreinan meirihluta á þingi og Verkamannaflokkurinn þurrkaðist nánast út í Skotlandi.

Í viðtalinu við BBC fer hann yfir þau 20 ár sem hann sat á þingi. „Við gerðum ekki allt rétt. Við gerðum samt marga góða hluti og ég er stoltur af þeim ákvörðunum sem ég hef tekið.“

Balls segir að ein ástæða fyrir ósigrinum sé að flokkurinn hafi ekki heillað stór fyrirtæki nægilega vel, og var það á ábyrgð Ed Milibands, fyrrum leiðtoga flokksins sem sagði af sér í kjölfar kosninganna. „Ég var í raun meiri talsmaður viðskiptalífsins en á sama tíma treysti ég Ed Miliband 100 prósent. Hann var leiðtoginn, ég var skuggaráðherra. Við unnum báðir hörðum höndum í kosningabaráttunni og þegar öllu er á botninn hvolft tókst okkur hvorugum að sannfæra kjósendur.“

Í forsætisráðherratíð Gordons Browns fyrir hrun var Ed Balls einn af aðalráðgjöfum Browns í efnahagsmálum. Margir settu því spurningamerki við hæfni hans til að gegna lykilhlutverki í efnahagsmálum fyrir Verkamannaflokkinn. Sérstaklega var þeirri staðreynd velt upp í kosningunum nú, hvers vegna ríkissjóður var rekinn með halla á árunum fyrir hrunið. 

„Fyrir árið 2007 var Bretlandi lítið skuldsett ríki en þá vorum við líka með smávægilegan halla á fjárlögunum. Fólk segir núna að við hefðum átt að vera með afgang af fjárlögunum á þessum tíma en að mínu mati hefði það ekki skipt miklu máli í þeirri stóru kreppu sem dundi á okkur þar sem okkur hafði ekki tekist að koma böndum á ört vaxandi bankakerfi, og ég hef í tíu ár þurft að bera þann kross,“ segir Balls.

Hann útilokar ekki endurkomu í stjórnmál en segist á sama tíma ekki ætla að flýta sér aftur í fremstu röð stjórnmálanna. Eiginkona Balls er Yvette Cooper, þingmaður Verkamannaflokksins og hefur hún gefið kost á sér sem formann flokksins. Er hún þar í harðri samkeppni við meðal annars Andy Burnham, Mary Creagh og Tristram Hunt. Balls segist ætla að nýta tímann vel til þess að styðja við eiginkonu sína í baráttunni um formannssætið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert