Söngvarinn sem átti ekki vini

Mans Zelmerlow
Mans Zelmerlow Af Facebook-síðu Mans Zelmerlow

Måns Zel­mer­löw fæddist í Lundi í Svíþjóð 13. júní árið 1986. Hann er poppsöngvari og þáttastjórnandi en í kvöld mun hann hugsanlega einnig státa af því að hafa sigrað í Eurovision í Vínarborg í Austuríki árið 2015.

Svíar hafa staðið sig vel í Eurovision í gegnum árin. Fimm sinnum hafa þeir fagnað sigri og nú er svo komið að mörg hinna landanna nýta sér krafta sænskra sönglagahöfunda. Síðustu vikur hefur sænska lagið Heroes trónað á toppi lista veðbanka en ljóst er að Ítalía og Rússland munu veita því harða samkeppni.

Zelmerlöw tók tvisvar þátt í sænsku forkeppninni fyrir Eurovision, Melodifestivalen, áður en hann fór loks með sigur af hólmi í ár. Í heimalandi sínu er hann þekktastur fyr­ir að hafa tekið þátt í sænska Idol­inu árið 2005.

Lifði af skjálftann í Indlandshafi

Móðir Zelmerlöw er prófessor við háskólann í Lundi og faðir hann er skurðlæknir. Zelmerlöw lagði stund á tónlistarnám í Lundi með áherslu á kórsöng. Hann á eina yngri systur og hefur mjög gaman af því að spila fótbolta, tennis og golf.

Zelmerlöw hefur átt labradorhundinn Messi frá því í mars árið 2013 en þeir hafa meðal annars tekið þátt í sjónvarpsauglýsingu saman.

Zelmerlöw var í fríi ásamt fjölskyldu sinni á Khao Lak á Taílandi þegar jarðskjálftinn mikli varð skammt frá eyjunni Súmötru í Indlandshafi á annan dag jóla árið 2004. Þau lifðu öll af.

Er sænska lagið stolið?

Texti Heroes fjallar um barnæsku hans en hann átti í erfiðleik­um með að eign­ast vini. Hann átti sér þó einn banda­mann. Þegar Zelmerlöw flytur framlag sitt á sviðinu má meðal annars sjá teiknaðri fíguru bregða fyrir, hugsanlega ímynduðum vini.

„Ég er hamingjusamur og mér er létt. Og ég er spenntur fyrir laugardagskvöldinu. En nú skulum við fagna þessu aðeins. En bara smá, ég lofa,“ sagði Zelmerlöw á blaðamannafundi eftir seinni undanúrslitin í gærkvöldi.

Háværar raddir hafa verið um að lag Zelmerlöws sé stolið, eða að það líkist lagi Davids Guetta, Lovers on the sun, í það minnsta mjög mikið. Var hann spurður um þetta á blaðamannafundinum og sagði hann að uppbygging laganna væri svipuð. „Ef maður greinir tónana þá eru ekki tveir tónar sem eru líkir,“ sagði sænski söngvarinn.  

Hér má hlýða á lag Davids Guetta: 

Zelmerlöw ætlar sér á toppinn á laugardag en sagðist í viðtali við Expressen helst óttast samkeppni ítalska tríósins.

Í ár tek­ur Svíþjóð þátt í Eurovisi­on í 55. skipti og hef­ur landið aðeins fimm sinn­um verið fjarri góðu gamni. Sví­ar hafa oft­ast unnið keppn­ina, eða fimm sinn­um. Landið fór síðast með sig­ur af hólmi árið 2012 og hef­ur tvisvar hafnað í neðsta sæti.

Gæti hugsað sér að hitta karlmann

Árið 2014 olli Zel­mer­löw miklu upp­námi í Svíþjóð þegar hann hélt því fram í mat­reiðsluþætti að sam­kyn­hneigt kyn­líf væri ónátt­úru­legt. Sam­kvæmt breska vefn­um Pink News sagði söngvar­inn orðrétt: „Það er ekki eðli­legt fyr­ir karl­menn að vilja sofa hver hjá öðrum“ og setti þá aðra þátt­tak­end­ur hljóða.

Nú hefur hann sagt að hann gæti vel hugsað sér að hitta karl­mann í róm­an­tísk­um til­gangi. Zel­mer­löw var spurður hvort hann gæti séð fyr­ir sér að eiga stefnu­mót við karl­mann af sænska miðlin­um Metro og svaraði hann ját­andi. „Já, ef mér líður þannig – al­gjör­lega, ég gæti gert það,“ sagði söngv­ar­inn.

Zel­mer­löw hef­ur beðist af­sök­un­ar á orðum sínum og unnið með sænsk­um hóp­um sem berj­ast fyr­ir rétt­ind­um hinseg­in fólks og er hann sagður und­ir­strika breytta af­stöðu sína enn frek­ar með svari sínu við fyr­ir­spurn Metro.

Hér má hlýða á órafmagnaða útgáfu lagsins Heroes: 

Måns Zelmerlöw sjunger Heroes akustiskt! Vad tycker ni?!

Posted by SVT Melodifestivalen on Monday, May 18, 2015



Mans Zelmerlow fagnar 29 ára afmæli sínu í næsta mánuði.
Mans Zelmerlow fagnar 29 ára afmæli sínu í næsta mánuði. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert