Tveggja milljóna króna upphafshögg

Golfari var dæmdur til að greiða um tvær milljónir króna …
Golfari var dæmdur til að greiða um tvær milljónir króna í skaðabætur fyrir að skjóta golfkúlu í annan golfara. AFP

Skoskum golfara hefur verið gert að greiða öðrum golfara 10 þúsund pund (um tvær milljónir króna) í skaðabætur eftir að hann skaut óvart í hann golfkúlu á golfvelli í Skotlandi.

Golfarinn Stewart Muir, hitti kúluna illa í upphafshöggi hans á níundu braut og lýsti dómari skotinu með þeim hætti að fyrirsjáanleg hætta hafi fylgt því að kúlan færi í annan golfara, sem varð raunin en John Ure var á tíundu braut á Belshilli golfvellinum í Lanarkshire þegar hann fékk kúluna í sig með þeim afleiðingum að hann féll til jarðar og hlaut höfuðáverka.

Ure, sem er 46 ára að aldri, fór fram á skaðabætur frá Muir eftir atvikið sem átti sér stað hinn 9. mars árið 2013 og sagði Hæstiréttur í Edinborg að skaðabótakrafa hafi myndast á hendur Muir vegna villuskotsins og sagði dómari að réttmæt fyrirsjáanleg hætta hafi verið til staðar fyrir upphafshöggið þar sem einn í holli Muir hafði kallað „fore“ eftir sitt upphafshögg, til þess að vara hóp Muir við golfkúlu sem hann hafði slegið í átt til þeirra. Sagði dómarinn í málinu að því hefði Muir mátt vera meðvitaður um að hópur Ure hafi verið innan þess svæðis sem golfkúlan gæti lent á eftir upphafshöggið.

Tvö högg af þremur stefndu hópnum í hættu

Við málsmeðferðina var greint frá rannsókn sem segir að 92 prósent allra golfkúlna endi innan 30 gráða frá ætluðum áfangastað kúlunnar, en högg Muir tilheyrir hinum átta prósentunum. Muir sagði við meðferð málsins að hann hefði ekki skotið kúlunni hefði hann talið áhættu fylgja skotinu, sagði höggið sneiðhögg. „Þú myndir ekki áætla að boltinn færi þetta langt til hægri," sagði hann.

Muir, sem hefur verið meðlimur í Belshilli klúbbnum frá árinu 2005 og starfar í vöruhúsi, var að spila níundu braut golfvallarins ásamt tveimur öðrum þegar óhappið varð. Hann sagði fyrir dómi að annar í hóp hans hafi átt lélegt högg með þeim afleiðingum að kúla hans stefndi í átt að hóp Ure og kallaði viðkomandi „fore“ til þess að vara hópinn við kúlunni. Annar í holli Muir átti ágætis högg og setti hann kúluna „beint á miðja braut", sagði Muir sem bætti við að hann slái kúlu um 180 metra að jafnaði í upphafshöggum sínum. En það varð ekki raunin þegar umrætt atvik átti sér stað heldur sveigði bolti hans yfir á tíundu brautina. Kallaði hann þá „fore“ í átt að hópnum og setti höndina upp í loft til að vara hópinn við. Þá kallaði annar úr holli hans einnig til hópsins að vara sig á golfkúlunni.

Tveir spilarar í holli Ure á tíundu braut leituðu þá skjóls. Það gerði Ure ekki og fékk hann golfkúluna í sig. Muir var spurður við meðferð málsins hvort hann hefði hugsað til golfaranna á tíundu braut áður en hann tók upphafshöggið. Hann sagðist ekki hafa hugsað út í það að slíkt vandamál kynni að koma upp. „Ég hafði ekki áætlað að skot í þessa átt yrði til vandræða," sagði hann.

Ure hlaut áverka á höfði við það að fá golfkúluna í sig og datt hann niður við höggið. Þá var honum óglatt og líkamlega illt síðar um daginn og leitaði því á spítala. Hann þjáist af þrálátum lotubundnum höfuðverkjum og ógleði og hefur misst viljann til þess að spila leikinn áfram.

Frétt The Telegraph um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert