Byggingar skulfu í Tókýó

Starfsmaður japönsku veðurstofunnar útskýrði stöðuna á blaðamannafundi í Tókýó í …
Starfsmaður japönsku veðurstofunnar útskýrði stöðuna á blaðamannafundi í Tókýó í dag. AFP

Sterkur jarðskjálfti varð í nágrenni Tókýó í dag með þeim afleiðingum að byggingar skulfu, öryggiskerfi fóru í gang og neðanjarðarlestakerfi borgarinnar stöðvaðist um tíma. 

Skjálftinn var 5,3 að stærð og segja vísindamenn að ekki sé hætta á að flóðbylgja fylgi í kjölfarið. 

Jarðhræringarnar höfðu einnig áhrif á starfsemi alþjóðaflugvallarins Narita í Tókýó, en var lokað um stund á meðan starfsmenn athuguðu með skemmdir á báðu flugbrautum vallarins. Athugun leiddi í ljós að þær hefðu sloppið við skemmdir.

Skjálftinn mældist á 35 km dýpi og var miðja hans um 34 km norður af Tókýó, sem er á meðal þéttbýlustu borga heims.

Japanska ríkisfréttastofan NHK segir að áhrif skjálftans hefðu fundist víða í og við borgina. 

Hvorki hafa borist fréttir af eigna- né manntjóni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert