Mörg hundruð létust í hitabylgju

Hitinn hefur dregið marga til dauða.
Hitinn hefur dregið marga til dauða. AFP

Hátt í 500 hafa látið lífið á Indlandi í mikilli hitabylgju sem hefur geisað dögum saman í tveimur ríkjum. Sumstaðar hefur hitinn farið upp í 50 gráður að sögn yfirvalda.

AFP segir að tala látinna sé komin yfir 430 og að sögn yfirvalda er talið fullvíst að hún eigi eftir að hækka. Ástandið er mjög slæmt í ríkinu Telangana, sem er í suðurhluta landsins. Ekki er útlit fyrir að veður fari kólnandi á næstunni. 

Mjög heitt hefur verið víða á Indlandi undanfarna daga, m.a. í höfuðborginni Nýju-Delí. Margir óttast að hitabylgjan muni leiða til raforkuskorts. Mesti hitinn hefur mælst í nágrannaríkjunum Telangana og Andrhra Pradesh. 

Yfirvöld í Andhra Pradesh hvetur fólk til að vinna ekki lengi í hitanum, en í síðustu viku létust 246 af völdum hitans. 

„Meirihluti þeirra sem hafa látist er fólk sem hefur verið í sólinni, flestir fimmtugir og eldri og verkafólk,“ sagði P. Tulsi Rani, sem er talsmaður almannavarna í Andrhra Pradesh.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert