Drengurinn fékk 8 mánaða fangelsisdóm

Fjórtán ára austurrískur drengur var í dag dæmdur fyrir að skipuleggja hryðjuverkaárás á lestarstöð í Vínarborg í nafni Ríkis íslams. Hann mun þurfa að dúsa í fangelsi í átta mánuði.

Drengurinn var m.a. dæmdur fyrir að tilheyra hryðjuverkasamtökum. Hann ætlaði sér að fara til Sýrlands og ganga til liðs við þá sem eru þar í „heilögu stríði“. Drengurinn var í fyrstu fréttum af málinu sagður fimmtán ára en samkvæmt dómsskjölum er hann aðeins fjórtán ára. Hann verður fimmtán ára innan fárra daga.

Frétt mbl.is: Fimmtán ára drengur undirbjó hryðjuverkaárás

Lögreglan handtók piltinn í október á síðasta ári eftir að hafa fengið upplýsingar um að hann hefði reynt að kaupa sér efni til sprengjugerðar. Ætlaði pilturinn sér að sprengja sprengjur á opinberum stöðum, m.a. á Westbahnhof-lestarstöðinni í Vín.

Lögmaður piltsins segir að hann hafi alist upp föðurlaus. Hann hafi einungis verið að „leika sér með hugmyndina“ um að búa til sprengju.

Drengurinn átti erfitt uppdráttar og var sendur í skóla fyrir börn í vanda. Hann leitaði stöðugt að viðurkenningu og að vera hluti af einhverju, sagði lögmaðurinn. 

„Ímyndaðu þér vald áróðurs sem segir ungu fólki sem er einmana: „Þú getur gert eitthvað gott, og fengið peninga og konur,““ sagði lögmaðurinn m.a. um aðstæður piltsins. 

Fjölskylda drengsins tók eftir því að hann var farinn að aðhyllast öfgar og hafði samband við lögreglu.

Í tölvu piltsins fundust myndir af ofbeldi og áróðri Ríkis íslams. 

Saksóknari málsins segir að pilturinn hafi ekki sýnt neina iðrun.

Drengurinn við réttarhöldin í dag.
Drengurinn við réttarhöldin í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert