Hjón týndust í tvær vikur

AFP

Bandarísk hjón fundust á sunnudaginn í bifreið sinni á afskekktum stað í San Diego-sýslu í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum eftir að hafa verið saknað í tvær vikur. Konan, Dianna Bedwell sem er 68 ára, hafði þá orðið fyrir alvarlegri ofþornun en eiginmaður hennar, Cecil Knutson, var hins vegar látinn. Hann var 79 ára að aldri.

Fram kemur í frétt AFP að hjónin hafi beygt á röngum stað og í kjölfarið fest bifreiðina. Þau hafi reynt að lifa á regnvatni og lítilsháttar af matvælum sem þau höfðu með sér. Þau fundust skammt frá skátabúðum skammt frá bænum Warner Springs. Lík Knutsons fannst skammt frá bifreiðinni en Bedwell var hins vegar inni í henni.

Umfangsmikil leit hófst að fólkið þegar ekkert hafði frést af þeim um tíma. Síðast sáust þau Knutson og Bedwell yfirgefa Valley View-spilavítið 10. maí, en spilavítið er rúma 40 kílómetra frá þeim stað þar sem þau fundust. Þau voru þá á leiðinni til sonar síns í matarboð en skiluðu sér hvorki þangað né til heimilis síns í Orange-sýslu.

Bedwell var flutt á sjúkrahús eftir að hún fannst. Hún sagði lögreglunni að þau Knutson hefðu verið að reyna að stytta sér leið þegar þau hafi villst af leið og síðan fest bifreiðina. Lögreglan hefur fengið takmörkuð tækifæri til þess að ræða við Bedwell samkvæmt fréttinni og ekki liggur fyrir nákvæmlega með hvaða hætti Knutson lést.

Þá segir í fréttinni að Knutson, líkt og Bedwell, hafi verið sykursjúkur. Haft er eftir lögreglumanninum Ken Nelson að nógu erfitt væri fyrir fullfrískt fólk að lifa af svo lengi við þessar aðstæður svo ekki sé talað um þá sem ættu við sykursýki að stríða. „Það er í raun kraftaverk að hún skuli hafa lifað þetta af.“

Knutson og Bedwell hörðu verið gift í yfir 25 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert