Stærsta rýming frá stríðslokum

Verkamenn að störfum við Muelheim-brúnna þar sem sprengja úr seinni …
Verkamenn að störfum við Muelheim-brúnna þar sem sprengja úr seinni heimsstyrjöldinni fannst. AFP

Um 20.000 manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín í Köln í Þýskalandi í morgun eftir að sprengja frá seinni heimsstyrjöldinni fannst við brú yfir ána Rín. Rýmingin er sú umfangsmesta frá stríðslokum í Þýskalandi. Talið er að sprengja sé bandarísk en hún vegur heilt tonn.

Yfirvöld settu upp öryggissvæði í kílómetra fjarlægð frá staðnum þar sem sprengjan fannst. Fjölmiðlar á staðnum segja að hún hafi fundist á föstudag þegar verið var að undirbúa framkvæmdir við leiðslu við Muelheim-brúnna yfir Rín.

Á meðal þeirra sem hefur verið gert að yfirgefa svæðið eru um 1.100 íbúar á heimili fyrir aldraða og fatlaða. Sexhundruð þeirra eru sagðir þurfa á umönnun að halda.

Ekki er óvanalegt að sprengjur úr seinni heimsstyrjöldinni finnist í Þýskalandi en hundruð tonna af sprengjum finnast á hverju ári. Til stendur að gera sprengjuna óvirka nú síðdegis. Það gengur yfirleitt hnökralaust en árið 2010 létust þó þrír sprengjusérfræðingar þegar þeir reyndu að gera sprengju óvirka.

Frétt BBC af rýmingunni í Köln

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert