Neydd til að fylgjast með aftökum

Aftökurnar fóru fram í fornu hringleikahúsi í Palmyra.
Aftökurnar fóru fram í fornu hringleikahúsi í Palmyra. AFP

Vígamenn Ríkis íslams söfnuðu saman almennum borgurum í fornu borginni Palmyra í vikunni og neyddu þá til þess að fylgjast með fjöldaaftöku. Mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights segir frá þessu í dag. Í frétt The Independent kemur fram að tuttugu manns voru teknir af lífi í fornu hringleikahúsi sem stendur í borginni.

Mennirnir voru ásakaðir um að hafa barist í hersveitum Bashar Assad, forseta Sýrlands. Ekki liggur fyrir hvernig mennirnir voru teknir af lífi.

Palmyra er á heimsminjaskrá UNESCO. Vígamenn samtakanna náðu yfirráðum þar í síðustu viku og að mati margra ógna þeir framtíð fornra rústa í borginni sem eru allt að 2000 ára gamlar.

Þúsundir íbúa borgarinnar flúðu en margir eru enn í borginni. Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Genf segist hafa fengið tilkynningar um að stjórnarher Sýrlands hafi aftrað fólki að yfirgefa borginna þar til þeir hörfuðu þaðan sjálfir í síðustu viku. 

Hryðjuverkasamtökin gáfu út 87 sekúndna myndskeið í gær sem sýnir að allar fornar rústir borgarinnar standi enn. Mannréttindasamtökin greindu frá því að 67 almennir borgarar, þar á meðal fjórtán börn og tólf konur, hafi verið myrt í borginni al-Sikhni, þorpinu al-Aamiriyyi og í Palmyra fyrir að „eiga í samskiptum við stjórnarherinn og fela meðlimi þeirra í húsum sínum.“

Rúmlega 230 karlar, konur og börn hafa verið drepin af vígamönnum samtakanna í Deir Ezzor og Palmyra síðan 16. maí. Yfirráðasvæði Ríkis íslams í Sýrlandi er meira en 95 þúsund ferkílómetrar, sem er meira en helmingur landsins. 

Myndband Ríkis íslams má sjá hér að neðan.

Frá Palmyra.
Frá Palmyra. AFP
Fornar rústir standa í Palmyra og er borgin á heimsminjaskrá …
Fornar rústir standa í Palmyra og er borgin á heimsminjaskrá UNESCO. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert